Í íslenskri rannsókn svöruðu 79% foreldra barna með einhverfu að þeir hefðu haft áhyggjur af þroska eða hegðun fyrir 3 ára aldur. Svipað hlutfall foreldra taldi að þeir hefðu verið fyrstir til að tilgreina slíkar áhyggjur. Þegar litið var til baka töldu um 83% að einkenni einhverfu hafi verið sýnileg fyrir 2 ára aldur og nánast allir að þau hefðu verið komin fram fyrir 3 ára aldur.
Mál- og félagsþroski
Algengustu áhyggjur foreldra ungra barna af þroskaframvindu beinast að málþroska, nánar tiltekið að tali.20 Um leið eru það slíkar áhyggjur sem foreldrar munu oft bera upp í heilsugæslunni. Þetta á einnig við um einhverfu, þ.e. fyrstu áhyggjur foreldra eru oftast af tal- og málþroska. Næst algengast er að fyrstu áhyggjur foreldra beinist að frávikum í félagslegum samskiptum.
Þegar foreldrar, sem eiga eldra barn með einhverfu, greina frá fyrstu áhyggjum hjá yngra barni sínu þá er algengast að þær beinist að félagsþroska. Þegar fyrstu áhyggjur vakna hins vegar síðar hjá þessum foreldrum, eða þegar barnið er komið á annað aldursár, er algengast að þær beinist að málþroska.
Stöðnun eða afturför
Foreldrar upplifa stundum, á öðru aldurári barnsins, að þeim virðist sem þroski þess hafi staðnað eða farið aftur. Þetta á oftast við um málþroska en einnig geta fylgt breytingar á leik, svefn- og matarvenjum, eða óútskýrður pirringur og vansæld. Foreldrar hafa gjarnan skýringar á reiðum höndum; veikindi, tilkoma nýs systkinis og/eða búferlaflutningar er gjarnan nefnt.
Niðurstaða þeirra verður því oft sú að þetta séu eðlileg viðbrögð barnsins við breytingum, nema í þeim fáu tilvikum þar sem afturförina ber mjög brátt að. Það ber að taka allar vísbendingar um stöðnun eða afturför alvarlega og vísa án tafar áfram til barnalæknis.
Ýmsar algengar áhyggjur foreldra
- Svarar ekki kalli (bregst ekki við nafni)
- Virðist stundum heyra en stundum ekki
- Getur ekki sagt hvað hann/hún vill
- Fylgir ekki fyrirmælum
- Bendir ekki og vinkar ekki bless
- Notaði nokkur orð sem nú heyrast ekki lengur
- Notar ekki bros í samskiptum
- Virðist helst vilja leika ein(n)
- Nær í það sem hann/hana vantar frekar en að biðja um hjálp
- Erfitt að ná augnsambandi
- Er í eigin heimi, lokar sig af
- Hefur ekki áhuga á öðrum börnum
- Fær reiðiköst af litlu eða óskiljanlegu tilefni
- Er mikið á ferðinni, ósamvinnuþýð(ur)
- Kann ekki að leika sér með dót
- Hefur óvenjuleg tengsl við hluti
- Er ofurnæm(ur) á ákveðin hljóð
- Hreyfir sig skrítilega á köflum
Foreldrar lýsa sjaldan áhyggjum af öllum ofangreindum atriðum hjá sama barninu.