Einhverfa og raskanir á einhverfurófi

Skilgreining

Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur yfirleitt fram snemma í barnæsku. Samkvæmt ICD-10  birtast einkenni einhverfu í hegðun og koma fram á þremur sviðum:

a) í félagslegu samspili
b) í máli og tjáskiptum og
c) í sérkennilegri og/eða áráttukenndri hegðun. 

Mismunandi fjöldi og styrkleiki einkenna ásamt mikilli breidd í vitsmunaþroska ræður hinu fjölbreytta birtingaformi. Hugtakið röskun á einhverfurófi (e. autism spectrum disorder) nær yfir þennan breytileika (hér á eftir vísar einhverfa til alls rófsins).

Einhverfa var  skilgreind á sama hátt í flokkunarkerfunum ICD-10 og DSM-IV. Hins vegar urðu verulegar breytingar á flokkun í fimmtu endurskoðun DSM sem eru líklegar til að hafa áhrif á elleftu endurskoðun ICD sem er væntanleg 2018. 

 

Fá dæmi eru um að börn „læknist“ af einhverfu enda þótt hægt sé að hafa áhrif á framvindu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Þar af leiðandi er mikilvægt að finna börnin og hefja snemmtæka íhlutun sem fyrst.

Frekari upplýsingar

Litróf einhverfunnar: Bók ritstýrt af Sigríði Lóu Jónsdóttur og Evald Sæmundsen sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2014.

Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins: www.greining.is

Einhverfusamtökin: www.einhverfa.is

Autism Speaks samtökin: www.autismspeaks.org

M-CHAT og M-CHAT-R/F: http://mchatscreen.com