Sérnám í heimilislækningum

Kennslustjórar

Margrét Ólafía Tómasdóttir

Þórdís Anna Oddsdóttir
Víóletta Ósk Hlöðversdóttir
No image selected
Guðrún Dóra Clarke
Bjarki Steinn Traustason

Sérnám í heimilislækningum er elsta sérnámið hérlendis, fyrstu nemarnir byrjuðu 1995 og nokkrum árum síðar kom kennslustjóri til starfa við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og byrjað var að vinna eftir því skipulagi sem sérnámið er byggt á í dag.   

Í upphafi var námið hugsað sem 3ja ára nám á Íslandi með framhaldi erlendis. Nú er boðið uppá 5 ára nám hérlendis en sum taka samt sem áður hluta námsins erlendis meðal annars í Svíþjóð. 

Í ágúst 2023 var gefin út reglugerð númer 856/2023 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Í reglugerðinni er lögð áhersla á ramma um sérnámið og að það fari fram samkvæmt marklýsingu þar sem kveður á um inntöku, innihald, fyrirkomulag og lengd náms og einstaka námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismati

Marklýsing Félags íslenskra heimilislækna er sá grunnur sem sérnámið byggir á  og segir til um þær kröfur sem gerðar eru til sérgreinarinnar og lækna í sérnámi í heimilislækningum.

Í sérnáminu er gert ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi með stuðningi, handleiðslu og eftirliti þannig að sérnámslæknir nái að tileinka sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning sem marklýsingin kveður á um

 

Sérnámið í heimilislækningum á heimili í Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) í Mjódd og þar er haldið utanum skipulag og stjórnum sérnámsins.

Kennslustjórar           Margrét Ólafía Tómasdóttir, Víóletta Ósk Hlöðversdóttir, Bjarki Steinn Traustason, Þórdís Anna Oddsdóttir og Guðrún Dóra Clarke sem er staðsett á Akureyri
Verkefnastjóri sérnámsins:      Arna Þórdís Árnadóttir

Balint leiðbeinendur: Katrín Fjeldsted, Lilja Sigrún Jónsdóttir og Þórdís Anna Oddsdóttir.

 

Allar heilbrigðisstofnanir landsins eru viðurkenndir kennslustaðir í heilsugæsluhluta sérnámsins en sérnámslæknar starfa að jafnaði á einni heilsugæslustöð á meðan á starfsnámi stendur og fá þar handleiðara (mentor) sem er reyndur sérfræðingur í heimilislækningum á viðkomandi stöð.

Sjúkrahúshluti starfsnámsins fer fram að mestu á Landspítala (LSH) eða sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) samkvæmt samningi milli LSH og SAk við ÞÍH.

Fræðilegi hluti námsins fer fram hálfan dag í viku í formi hópkennslu en einnig á námskeiðum og með öðrum námstækifærum, meðal annars á Læknadögum, Heimilislæknaþingi FÍH, fræðslufundum FÍH, námsferðum og svo framvegis.

Í sérnáminu vinna sérnámslæknar að vísindarannsókn eða gæðaverkefni í samráði við handleiðara og Margréti Ólafíu Tómasdóttur kennslustjóra.

Um áramót 23-24 verða tæplega 100 sérnámslæknar í sérnáminu og stunda tæplega 40 prósent þeirra starfsnám á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni (HSS, HSU, HSA, HSN, HVEST og HVE) en rúmlega 60 prósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og einkastöðvar á höfuðborgarsvæðinu (Höfða, Salastöð, Kirkjusand og Urðarhvarf).

Heilsugæsluhluti sérnámsins eru 3 ár og að jafnaði  er fyrsta, þriðja og fimmta árið í sérnáminu starfsnám í heilsugæslu það er skiptast á við starfsnámið á sjúkrahúsi á öðru og fjórða ári.
Sérnámslæknir fær handleiðara (mentor) í upphafi náms sem fylgir honum út námið.


Heilsugæsluhluti starfsnámsins er venjulega á einni starfsstöð en æskilegt er að taka starfsnám í heilsugæslu á að minnsta kosti 2 stöðvum til að kynnast annars konar þýði og skipulagi.  
Í heilsugæsluhluta námsins gengur sérnámslæknir inn í vinnuskipulag á viðkomandi heilsugæslustöð það er sinnir móttöku sjúklinga, símatíma, ungbarnavernd og annarri heilsuvernd og vaktþjónustu.  

Kennsluskipulag í starfsnámi í heilsugæslu gerir ráð fyrir vikulegri handleiðslu þar sem farið er yfir sjúkraskárnótur og/eða valin tilfelli.  Einnig eru reglulegir fundir með handleiðara til að ræða framvindu og markmið sérnáms. Gert er ráð fyrir reglulegri myndgátun eða að handleiðari fylgist með sérnámslækni í viðtali.  Einnig eru vikulegir fræðslufundir á stöð þar sem rædd eru heimilislæknatengd efni þar sem allir sérfræðingar stöðvarinnar taka þátt.


Sérnámslæknir í heilsugæsluhluta sérnámsins fer alla þriðjudagseftirmiðdaga í hópkennslu með sínum kennsluhópi.

 

Sjúkrahúshluti sérnámsins er 2 ár og fer að jafnaði fram á Landspítala eða sjúkrahúsinu á Akureyri. Heimilt er að allt að 4 mánuðir starfsnáms í sjúkrahúshlutanum fari fram á minni stofnunum sem hafa til þess leyfi.

 

Sjúkrahúshluti sérnámsins er venjulega 4 mánuðir á  geðdeild, bráðadeild, lyflækningadeild og öldrunardeild og 3 mánuðir á kvennadeild og barnadeild auk 2 mánaða valtímabils, samtals 24 mánuðir.  

Sérnámslæknir gengur að mestu inní sömu stöðu og sérnámslæknar á viðkomandi deild, tekur þátt í göngudeildar og deildarvinnu, vöktum og fræðslu.


Á hverri deild fá sérnámslæknar klínískan handleiðara sem fundar með þeim í upphafi og lok dvalar og gerir umsögn til handleiðara og kennslustjóra

Í sjúkrahúshluta sérnámsins fer sérnámslæknir af sjúkrahúsi í hópkennsluna á þriðjudagseftirmiðdögum annan hvern þriðjudag og hina þriðjudagseftirmiðdagana á sína heilsugæslustöð þar sem sérnámslæknir hittir handleiðara og/eða sér sjúklinga að eigin vali og/eða vinnur að rannsóknar/gæðaverkefni.

 

Hópkennsla

Gerð er krafa um fræðilegt nám, það er að segja vikulega hópkennslu að lágmarki í 3 vetur þar sem farið er yfir um 45 kjarnaefni í fyrirlestrum. Einnig eru tilfelli ræd með gagnvirkum kennsluaðferðum. Einnig er farið í spurningar úr ameríska heimilislæknaprófinu og farið í Balint hóphandleiðslu þar sem rætt er meðal annars um erfið tilfelli, samskipti og samskiptavanda og ýmsa þætti mannlegs eðlis.

Auk vikulegrar hópkennslu er einnig krafa um að fylgja ákveðinni kennsludagskrá að fyrirmælum kennslustjóra: 

  • Læknadagar í lok janúar ár vert
  • Árlegur fræðsludagur FÍH fyrsta föstudag í mars
  • Arctic ferð á landsbyggð að vori til hópeflis og fræðslu
  • Heimilislæknaþing í október annað hvert ár
  • Námsferð til Oxford á Balintfund
  • Námsferð á Norræna heimilislæknaþingið

 

Frá vinnustofu á Sólvangi

Heimilislækningar byggja grunn sinn á vísindalegri nálgun og gagnreyndri þekkingu. Sérnámslæknar vinna á námstíma að rannsókn eða gæðaverkefni og í sérnáminu er gert ráð fyrir tíma til að sinna því í allt að 6 vikur á námstímanum. 

Rannsóknar eða gæðaverkefni lýkur með kynningu niðurstaðna á Heimilislæknaþingi sem haldið er annað hvert ár, Norræna Heimilislæknaþinginu eða öðrum sambærilegum þingum eða ráðstefnum. Einnig er hægt að ljúka rannsóknar/gæðaverkefni með grein.

 

Heilbrigðisstofnun/heilsugæsla verður að auglýsa eftir sérnámslækni en það er venjulega ákvörðun framkvæmdastjóra lækninga sem er ábyrgur fyrir sérnáminu á hverri stofnun.

Gerð er krafa um að umsækjendur hafi lokið sérnámsgrunni á Íslandi eða sambærilegu námi.

Kennsluráð fer yfir umsóknir og metur hæfi til sérnáms og getur einnig metið fyrri reynslu úr öðru starfsnámi, bæði til sjúkrahúshluta og heilsugæsluhluta starfsnámsins.

Við inntöku í sérnám er skipulögð sérnámsblokk og sérnámslæknir fær aðgang að rafrænni sérnámsmöppu sem geymir allar upplýsingar um sérnámið, skipulag og framgang. 

 

Handleiðari viðkomandi sérnámslæknis hefur það hlutverk að leiðbeina, styðja og hafa eftirlit með því að sérnámslæknir tileinki sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning sem marklýsingin kveður á um.

Árlegt námsmat fer fram með árlegu framvindumati sem er formlegt mat á framvindu í sérnámi og byggir á árlegri samantekt og skýrslu handleiðara. Sú skýrsla byggir meðal annars á matsblöðum og framgangsrýni vetrarins, starfsþróunaráætlun, vinnutengdu mati og fjölfaglegri endurgjöf lækna og annars starfsfólks í heilsugæslunni og af sjúkrahúsinu.

Handleiðari sendir kennslustjóra skýrsluna og í árlegu viðtali er farið yfir framvindumat, mætingu í kennslu,  frammistöðu á prófi og framgangi rannsóknar/gæðaverkefnis auk annarra þátta. Framvindumatsnefnd metur síðan hvort framgangur er ásættanlegur og sérnámslæknir hafi staðist hæfiskröfur, hvort þörf er á frekari vinnu eða viðbótartíma eða ef framgangur er ófullnægjandi.