Á síðustu árum hefur rannsóknum varðandi slysavarnir barna um öryggi í svefnumhverfi ungbarna fleygt fram og liggja nú fyrir margar ítarlegar rannsóknir um hættur og hvernig best er að varast þær. Til að bæta öryggi í svefnumhverfi ungbarna er mikilvægt að allt fagfólk veiti foreldrum samræmdar upplýsingar sem byggjast á niðurstöðum nýjustu rannsókna hverju sinni.  

Í köflum um mismunandi búnað má finna upplýsingar um hvar sé öruggt að láta börn sofa án eftirlits. Með þessu er átt við að búnaðurinn hefur staðist ströngustu kröfur um að barnið geti sofið án eftirlits og án þess að eitthvað komi fyrir það. Að foreldrar geti treyst því að þegar þau sofa að næturlagi að barnið þeirra sé öruggt í viðurkenndri vöggu eða ungbarnarúmi.

Börn sofna allstaðar t.d. í barnabílstólnum, burðarrúminu eða barnavagninum en þessi búnaður uppfyllir ekki þessar ströngu kröfur, en fellur undir búnað sem auðvelt er að flytja barnið í á milli staða. 

 

Djúpsvefn ungbarna – erfitt með að rumska úr svefni 

Ákveðin fjöldi barna fæðist með galla sem hefur áhrif á þann hluta heilans sem stjórnar öndun og að rumska úr svefni. Börn með þennan galla eru líklegri til að deyja úr vöggudauða. Vitað er að öryggi í svefnumhverfi þessara barna getur dregið úr hættu á að þau deyi. Þessi börn eru viðkvæmari, en við fæðingu er ekki hægt að greina þau og því er mikilvægt að gætt sé sérstaklega að öryggi í svefnumhverfi allra ungra barna til að koma í veg fyrir slys, s.s. köfnun eða henginu.

Mikið er framleitt af búnaði sem á að hjálpa barninu að sofa betur s.s. ungbarnahreiður, en þessi búnaður er ekki öruggur og því ættu ungbörn aldrei að nota hann. Til eru ýmsar aðferðir til að lengja svefntíma barns  s.s. að sofa úti í vagni því vitað er að ungbarnið sefur betur þar en það er vegna loftkælingar sem veldur dýpri og lengri svefni hjá börnum.