Veikindi eftir Covid-19

  Skipulag vegna þjónustu við sjúklinga með langdregin einkenni eftir COVID-19 sýkingu (post-covid-19, PC19)

  Skilgreining

  PC19 eru einkenni eða veikindi sem vara lengur en 3 vikur eftir byrjun sjúkdóms en chronic covid-19 (CC19) eða langvinnt covid-19 einkenni eða veikindi sem vara lengur en 12 vikur. 

  Landlæknir mun gefa út tilmæli um að nota greiningarnúmerið U09.9 fyrir þetta sjúkdómsástand í samræmi við tilmæli frá WHO.

  Algengi

  10% þeirra sem fá staðfesta covid-19 sýkingu virðast hafa einkenni lengur en 3 vikur skv. UK COVID Symptom Study

  Á Íslandi gætu það því verið 200-300 einstaklingar af þeim 2000-3000 sem nú hafa staðfest smit. Einkennin sem um ræðir eru hósti, hitavella, þreyta, mæði, brjóstverkir, höfuðverkir, einbeitningarörðugleikar, vöðvaverkir, vöðvaþreyta/kraftminnkun, meltingareinkenni, útbrot, efnaskiptatruflanir (svo sem verri stjórn á sykursýki), blóðtappar, þunglyndi og önnur geðræn einkenni.

   

  PC19 má skipta í þrjá meginhópa. Þá sem hafa ósértæk einkenni, þá sem hafa fengið alvarlega fylgikvilla svo sem blóðtappa og þá sem þurfa sérhæfða eftirfylgd eftir gjörgæslumeðferð vegna covid-19.

  PC19 getur gefið einkenni frá mörgum líffærakerfum og einnig hrjáð einstaklinga sem fengu tiltölulega mild einkenni með covid-19 sýkingunni. 

  Heildræn nálgun á vandamálum sjúklings ætti að vera leiðarljós við klíníska meðferð. 

  Samþætting heilbrigðisþjónustunnar og skýrt skipulag er mikilvæg í meðferð sjúklinga með PC19.

   

  Hlutverk heilsugæslu

  Náttúrulegur gangur almennt er ekki þekktur. Gera má ráð fyrir að margir sjúklingar muni ná sér án sérhæfðrar meðferðar.

  Heildræn nálgun heilsugæslunnar og skipulag með teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga, hreyfistjóra, sálfræðinga með áherslu á sjálfshjálp og stuðning er mikilvæg.

  Ráðgjöf og tilvísun þegar þörf er á til Covid-göngudeildar LSH eða endurhæfingarstofnana, Reykjalundar, Heilsustofnunar eða Kristness.

   

  Hlutverk LSH

  Skipulögð eftirfylgd á Covid-göngudeild og eftir atvikum á öðrum göngudeildum fyrir sjúklinga sem þurftu sjúkrahúsinnlögn.

  Tilvísun þegar þörf er til endurhæfingarstofnana, Reykjalundar, Heilsustofnunar eða Kristness.

  Ráðgjöf fyrir heilsugæslu eftir þörfum.

   

  Hlutverk endurhæfingarstofnana

  Endurhæfing eftir tilvísun frá LSH eða heilsugæslu að jafnaði eftir 3 mánuði frá byrjun veikinda og með forgangi fyrir sjúklinga með alvarleg einkenni, óvinnufærni og fjölþættan vanda. 

  Samþætting eftirfylgdar eftir endurhæfingu við LSH eða heilsugæslu eftir þörfum.