Farsæld barna

Þann 1. janúar 2022 tóku gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Meginmarkmið laganna er að stuðla að farsæld barns, og að börn og foreldrar/forráðamenn sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi og aðstoð við að halda utan um þjónustuna. Strax við fæðingu barns, eða eftir atvikum á meðgöngu, eiga foreldrar/forráðamenn og börn rétt á þjónustu tengiliðar farsældar eftir því sem þörf krefur. Tengiliður er í nærumhverfi barnsins og er starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi á meðgöngu og frá fæðingu og þangað til barnið hefur nám í leik- eða grunnskóla. 

 

Foreldrar/forráðamenn geta ávallt leitað sjálf til tengiliðar í nærumhverfi barnsins og óskað eftir samþættri þjónustu.

 

Ef þjónustuveitandi, eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að barnið þurfi frekari þjónustu en þegar er veitt skal hann veita foreldrum/forráðamönnum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu. Öll vinnsla persónuupplýsinga vegna samþættingar á þjónustu er aðeins heimil eftir að foreldrar/forráðamenn hafa sett fram beiðni þess efnis á þar til gerðum eyðublöðum. 

Í lögunum er kveðið á um stigskiptingu á þjónustu; fyrsta, annað og þriðja stig. Öll þjónusta í þágu farsældar barna er veitt á þremur þjónustustigum. 

Heilsugæslan er skilgreindur þjónustuveitandi á fyrsta stigi og í sumum tilvikum á öðru stigi.

  1. stig er grunnþjónusta fyrir alla - snemmtækur stuðningur
  2. stig er markviss stuðningsþjónusta byggð á faglegu mati eða frumgreiningu
  3. stig er sérhæfðari stuðningsþjónusta í samræmi við ítarlega greiningu á þörfum

Hver heilsugæslustöð hefur tengilið sem á að veita upplýsingar um þjónustu, aðstoða foreldra/forráðamenn og barn og styðja við samþættingu þjónustu í fyrsta stigi í samræmi við óskir þeirra. Tengiliður styður við samþættingu þjónustu á fyrsta stigi og veitir foreldrum/forráðamönnum og börnum yfirsýn yfir upplýsingar um þjónustu.

Barna- og fjölskyldustofa sér um fræðslu fyrir tengiliði og þarf að tilkynna þeim hvaða starfsmaður heilsugæslunnar sinnir þessu hlutverki.

Heilsugæslan tekur þátt í farsældarráði ásamt þjónustuveitendum á sínu þjónustusvæði.

Verkefnastjóri innleiðingar hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu er Kristín Ómarsdóttir og má hafa samband við hana í síma: 513-5731 eða á netfangið kristin.omarsdottir@heilsugaeslan.is

 

Ábyrgð heilsugæslu samkvæmt nýjum lögum

 

Tilkynningaskylda til barnaverndar

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna koma ekki í stað lögbundinnar tilkynningaskyldu til barnaverndar. Hafa þarf í huga að sumar upplýsingar um aðstæður barns eru með þeim hætti að mikilvægt er að tilkynna þær strax til barnaverndarnefndar. Leiðbeiningar til foreldra um tengiliði og miðlun upplýsinga til tengiliða leysa tilkynningaskylduna ekki af hólmi. 

 

Kynning á samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna frá Barna- og fjölskyldustofu: