Leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Góð næring á meðgöngu er mikilvæg fyrir vöxt og þroska barns í móðurkviði og stuðlar að heilbrigði þess síðar á ævinni. Góð næring er ekki síður mikilvæg fyrir vellíðan og heilsu konunnar sjálfrar.

Konur þurfa ekki sérfæði þó þær eigi von á barni. Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur samkvæmt opinberum ráðleggingum, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.

Leiki grunur á að mataræðið sé ekki nógu fjölbreytt og vel samsett eða heilu fæðuflokkarnir útilokaðir af einhverjum ástæðum er mikilvægt að vanda fæðuval og velja matvæli sem innihalda þau efni sem líkaminn þarf á að halda. Einnig þarf í einhverjum tilfellum að taka bætiefni til að uppfylla þörf.

Fagfólk heilsugæslunnar getur leitað til næringarfræðings ÞÍH til að aðstoða skjólstæðinga sem best. Til langs tíma er þó æskilegt að tryggja aðgengi kvenna með meðgöngusykursýki og kvenna sem af einhverjum ástæðum geta ekki fylgt eða fylgja ekki almennum ráðleggingum um mataræði að næringarfræðingi eða næringarráðgjafa.