Meðganga og fæðing er eitt mesta breytingatímabil í lífi fjölskyldu og hefur áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu hennar. Efla þarf þekkingu og styrkja færni foreldra í nýjum aðstæðum með tilliti til þroska og samskipta við ungbarn. Fyrri reynsla þeirra getur haft áhrif á tengslamyndun.
Áhættuþættir fyrir vanlíðan eftir fæðingu eru m.a. aldur, menntun, sjálfsmynd, erfið lífsreynsla, erfiðleikar í umönnun/parsambandi, neysla vímuefna vanlíðan á meðgöngu og fyrri geðsaga.
Heilbrigðismat er framkvæmt í fyrstu vitjun. Spurt er út í sögu móður tengda meðgöngu, fæðingu og tímann eftir fæðingu. Fjölskyldutré (tveggja kynslóða) og tengslakort er teiknað eftir þörfum.
Heilbrigðismat
Stutt mats- og meðferðarsamtal í fyrstu heimavitjun.
- Meðganga og fæðing, heilsufarsleg/félagsleg/tilfinningaleg líðan? Hvernig leið móður á meðgöngu og í fæðingu? Hvernig varð henni við þegar hún sá barnið í fyrsta sinn? Hvernig líður móður núna (svefn, þreyta, næring)? Hvernig gengur að næra barnið (að setja á brjóst, fyrri reynsla við brjóstagjöf o.fl.)?
- Hvað kemur móður mest á óvart varðandi umönnun og þarfir ungbarnsins (til að ná fram skilning foreldra á þroska og setja í orð væntingar til ungbarnsins)?
- Ef eldri börn, hvernig gekk fyrstu vikurnar þegar þau voru lítil (til að fá fram fyrri og núverandi getu foreldra til að takast á við nýjar aðstæður)?
- Hvernig er heilsufar annarra fjölskyldumeðlima? Er heilbrigðisvandi sem þarf að taka tillit til?
- Er einhver annar álagsþáttur/áhyggjur hjá foreldrum núna (til að fá fram hvort fjölskyldan er að takast á við aðra álagsþætti, s.s. nýlegar breytingar, ástvina- eða atvinnumissi)? Hvert leita foreldrar eftir stuðningi? Metið þörf fyrir aðstoð.