Mikilvægt er að gera meðferðaráætlun með fjölbreyttum úrræðum, þar sem lyfjameðferð er eitt af mögulegum inngripum. Mörg lyf geta valdið vitrænni skerðingu og er mælt með vandaðri lyfjarýni áður en sértækri lyfjameðferð er beitt.
Kólínesterasahemlar
Lyfjameðferð með kólínesterasahemlum ætti að íhuga við heilabilun á grunni Alzheimer sjúkdóms. Kólínesterasahemlar geta hægt á versnun vægrar til meðallangt genginnar heilabilunar vegna Alzheimersjúkdóms og eru einnig notaðir við heilabilun á grunni Lewy sjúkdóms. Klínísk áhrif eru líklega sambærileg á milli mismunandi kólínesterashahemla.
Kólínesterasahemlar geta hægt á hjartslætti, og þannig aukið hættu á aukaverkunum á hjarta hjá sjúklingum með undirliggjandi áhættuþætti (gæta varúðar ef gefið er með lyfjum við hjartsláttartruflunum). Kólínesterasahemlar geta valdið lengingu á QT bili. Einkenni frá meltingarvegi eru meðal algengustu aukaverkana af völdum kólínesterasahemla en þessar aukaverkanir eru skammtaháðar og ganga yfirleitt eftir fyrsta mánuð meðferðar með kólínesterasahemlum.
- Donepezil: Byrjunarskammtur er 5 mg daglega sem má auka í 10 mg ef þolist vel.
- Rivastigmine: Hylki eða forðaplástur. Einungis er mælt með notkun plásturs þegar töflumeðferð hentar eða þolist ekki. Byrjunarskammtur er 4,6 mg/24klst.
- Galantamine: Forðahylki. Byrjunarskammtur er 8 mg daglega, en má auka í 16 mg og áfram í 24 mg daglega ef þolist vel
Mat á því hvernig kólínesterasahemill þolist og hvort eigi að hækka skammta ætti að fara fram eftir 3-4 vikur. Mat á virkni lyfjanna og mögulegum skammtabreytingum ætti að fara fram eftir 3-6 mánuði en ekki er mælt með að hætta með lyfið þó ekki sjáist framför á þeim tíma
NMDA-viðtakahemill
Memantine er notað við meðallangt genginni eða langt genginni heilabilun á grunni Alzheimer sjúkdóms eða ef veruleg atferliseinkenni eru til staðar. Byrjunarskammtur er 10 mg einu sinni á dag sem má auka í 20 mg ef þolist vel.
Framgangur Alzheimer sjúkdóms
Nýjar rannsóknir sýna að vitræn geta og færni geti farið versnandi þegar meðferð með kólínesterasahemli eða memantin er tekin út (vikum til mánuðum eftir að lyfjameðferð er stöðvuð). Fáar slembiraðaðar rannsóknir hafa metið árangur kólínesterasahemla lengur en í eitt ár en lyfjafaraldsfræðirannsóknir gefa þó vísbendingar um að lengri tíma meðferð geti haft jákvæð áhrif á vitræna getu og jafnvel lifun. Í þessu samhengi er mælt með einstaklingsbundnu mati á hversu lengi meðferð skuli haldið áfram. Ef stöðva á lyfjameðferð þá kemur til greina að gera það með niðurtröppun, sérstaklega ef um langtímameðferð var að ræða. Við versnun einkenna, sem getur átt sér stað innan nokkurra daga frá því að lyfjameðferð er hætt, þarf að leggja mat á hvort hefja skuli meðferð aftur.