Hreyfiseðillinn er meðferðarúrræði við sjúkdómum eða einkennum þeirra sjúkdóma sem vitað er að regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif á.

Heilbrigðisstarfsmenn innan heilsugæslunnar meta einkenni og ástand einstaklings, sem er þá vísað til sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar. 

Við komu til sjúkraþjálfara er:

  • Farið í gegnum heilsufarssögu og sjúkdómseinkenni, hreyfivenjur og áhugahvöt einstaklings.
  • Möguleikar og geta til hreyfingar ræddir og metnir í sameiningu.
  • Ef einstaklingur er tilbúinn til þá eru sett fram markmið og útbúin hreyfiáætlun, gjarnan til þriggja eða sex mánaða. Hreyfiáætlunin byggir á áhugahvöt og getu ásamt ráðleggingum um magn og ákefð ráðlagðrar hreyfingar sem meðferð við sjúkdómi viðkomandi einstaklings.

Einstaklingurinn skráir hreyfingu sína rafrænt og sjúkraþjálfari fylgist með framvindu og gangi mála, veitir aðhald, stuðning og hvatningu með símtölum og skilaboðum í gegnum Heilsuveru. 

Við lok hreyfiseðilstímabils fær læknir/teymi greinagerð frá sjúkraþjálfara og þegar einstaklingur mætir næst á heilsugæslu er árangur meðferðarinnar meðal annars metinn út frá ýmsum heilsufarsmælingum. 

Hreyfiseðilstímabil getur varað í allt að eitt ár.

Fólk er hvatt til að panta tíma hjá sínum heimilislækni ef það telur að hreyfiseðill gæti gagnast sér.

Á síðum heilsugæslustöðvanna eru upplýsingar um sjúkraþjálfara og viðverutíma þeirra.