Veitið eftirfarandi upplýsingar til kvenna eins og við á:

  • Útskýrið eðli breytingaskeiðs.
  • Veitið almennar upplýsingar um einkenni breytingaskeiðs og greiningu.
  • Ræðið lífstílsbreytingar og íhlutanir sem geta bætt heilsu og vellíðan.
  • Ræðið kosti og galla meðferðar við einkennum á breytingaskeiði.
  • Ræðið langtímaáhrif breytingaskeiðs á heilsu, til dæmis beinþynningu og þvagfæravandamál


Útskýrið fyrir konum að auk breytinga á tíðahring/blæðingum geti þær fundið fyrir ýmsum einkennum eins og:

  • Hita- og svitakófum (s.k. vasomotor einkenni)
  • Einkennum frá stoðkerfi (liðverkir og vöðvaverkir)
  • Áhrifum á andlega líðan (skapbreytingar)
  • Einkennum frá kvenlíffærum og þvagfærum (til dæmis þurrki í leggöngum, blöðrueinkennum).
  • Áhrifum á kynlíf (til dæmis minni kynlöngun)
  • Svefntruflunum.
  • Hjartsláttartruflunum.
  • Breyttri fitudreifingu.
  • Breyttum lífsgæðum.


Veitið konum upplýsingar um meðferð við einkennum breytingaskeiðs og hvetjið þær til að ræða einkenni sín og þarfir í sambandi við tíðahvörf.


Hormónameðferð er árangursríkasta meðferðin við hita- og svitakófum og öðrum einkennum á breytingaskeiði og best studd rannsóknum.


Ekki er mælt að hefja meðferð með hormónum eftir 60 ára aldur eða 10  árum frá tíðahvörfum vegna aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.


Ráðlegt er að nota minnsta gagnlega skammt hormóna og lok meðferðar er ekki bundin við 5 ár heldur er mat og ákvörðun í samráði við viðkomandi konu.


Upplýsið og ráðleggið konum varðandi getnaðarvarnir í kringum tíðahvörf (sjá nánar í 1.7).


Bjóðið þeim konum sem eru líklegar að fara í tíðahvörf í kjölfar lyfja eða skurðaðgerðar (til dæmis konur með krabbamein) stuðning og fræðslu áður en meðferð hefst eða vísið til viðeigandi fagaðila.


Meðferð án lyfja, til dæmis hugræn atferlismeðferð, getur verið gagnleg.