Hormónameðferð við tíðahvörfum kemur ekki alltaf í veg fyrir egglos og virkar því ekki sem getnaðarvörn.  Mæling á FSH hjá konum sem eru á hormónameðferð er óáreiðanleg og ekki hjálpleg í þessu sambandi.


Aldur konu (yfir 40 ára) er ekki frábending þegar kemur að vali á getnaðarvörn.

Getnaðarvörn hefur ekki áhrif á  tilkomu eða lengd einkenna á  breytingaskeiði en getur dulið einkenni.

Mikilvægt er að upplýsa um tengsl hormónameðferðar og  aldurstengdrar áhættu með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, brjóstakrabbameins og krabbameins í kvenlíffærum.  Eðlilegt er að þessir áhættuþættir hafi áhrif á val á getnaðarvarnarmeðferð.


 Koparlykkja sem sett er upp við 40 ára aldur má vera þar til tíðahvörfum er náð.


 Hormónalykkja (Mirena) sem getnaðarvörn má vera til 55 ára aldurs ef sett upp >45 ára.


Hormónalykkja (Mirena) er örugg  til að vernda legslímhúð hjá konum á meðferð með estrogeni og er sú meðferð samþykkt  í 5 ár og því rétt að skipta um lykkju á 5 ára fresti
 Aðrar getnaðarvarnir með eingöngu progesteroni þ.e. stafur, sprauta, pilla eru ekki rannsakaðar með tilliti til verndunar legslímhúðar með estrogenmeðferð.


 Allar getnaðarvarnir með progesteroni einu og sér eru öruggar sem getnaðarvörn með samsettri kaflaskiptri hormónameðferð (t.d. Cerazette® sem getnaðarvörn með Novofem® hormónameðferð).


 Ekkert mælir gegn ráðleggingu um ófrjósemisaðgerð eða notkun neyðargetnaðarvarna.


 Eðlilegt er einnig að ræða ófrjósemisaðgerð maka sem er áhættulítil aðgerð.


Samsett hormónagetnaðarvörn (pilla, plástur, hringur) við tíðahvörf

 • Ef kona reykir ekki og er ekki með áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum má ráðleggja notkun til 50 ára aldurs.
 • Konum sem reykja er ráðið frá notkun hormónagetnaðarvarna eftir 35 ára vegna hættu á hjarta og æðaáföllum.
 • Mælt er með að velja getnaðarvörn með progesteroni af fyrstu og annarri kynslóð (levonorgestrel, noretisteron) fyrir konur eldri en 40 ára vegna aukinnar hættu á bláæðasega sem fylgir auknum aldri.
 • Ráðlagt er að nota lyf með minna en 30microg af estrogeni  vegna mögulegrar hættu á bláæðasega og heila og hjartaáföllum sem geta fylgt auknum skömmtum og aldri.
 • Samantekt á rannsóknum hafa sýnt aðeins aukna hættu á brjóstakrabbameini með notkun hormónagetnaðarvarna sem þó er ekki til staðar 10 árum eftir að meðferð er hætt.
 • Hægt er að benda á að notkun hormónagetnaðarvarna getur minnkað hættu á beinþynningu, minnkað tíðaverki og blæðingar og minnkað einkenni breytingaskeiðs.
 • Notkun getnaðarvarna getur minnkað líkur á eggjastokkakrabbameini, krabbameini í legbol og krabbameini í ristli.
 • Notkun getnaðarvarna getur minnkað líkur á góðkynja breytingum í brjóstum.


Eingöngu progesteron getnaðarvarnir (pilla, sprauta, stafur, lykkja) við tíðahvörf

 • Progesteron getnaðarvarnir má nota til að draga úr blæðingum og minnka túrverki (óeðlilegar blæðingar þarf þó að rannsaka).
 • Konur án hættu á hjarta og æðasjúkdómum ættu að geta notað progesteron sprautu til 50 ára aldurs.
 • Rannsóknir (sem eru fáar) benda ekki til aukinnar hættu á bláæðasega og hjarta og æðaáföllum.
 • Fræðilega séð (fyrir áhrif blóðfita) gæti verið hætta á æðasjúkdómi hjá konum  með viðbótar áhættuþætti sem taka progesteron.  Sprautumeðferð hefur meiri áhrif á blóðfitur og ættu konur með áhættuþætti því ekki að velja slíka meðferð.
 • Flestar rannsóknir varðandi progesteron og brjóstakrabbamein eru litlar og misvísandi.
 • Áhyggjur eru af áhrifum háskammta progesterons (sprautumeðferðar) á beinþéttni við langtímanotkun og ef áhættuþættir eru til staðar ætti að velja aðra meðferð.  Áhrif hverfa þegar notkun er hætt.
 • Ef kona vill hætta getnaðarvörn fyrir 50 ára aldur  ætti að ráðleggja henni að nota getnaðarvarnir án hormóna þar til hún hefur ekki haft blæðingar í 2 ár.