Frumkomin eggjastokkabilun (primary ovarian insufficiency) er skilgreind sem frumkomin ef um er að ræða frumkomið tíðaleysi (primary amenorrhea) og enga starfsemi eggjastokka eða síðkomin (secondary) ef eggjastokkar hætta að starfa fyrir 40 ára aldur.
Greining er staðfest ef síðkomið tíðaleysi >3 mán og endurtekin rannsókn hefur sýnt hækkað FSH (>40 IE) hjá konu yngri en 40 ára.
Mismunagreining fyrir síðkomið tíðaleysi er t.d. fjölblöðru eggjastokkar (PCOS), tíðaleysi vegna undirstúkubilunar (hypothalamic amenorrhea) eða mjólkurkveikjublæði (hyperprolactinaemia).
Orsakir eggjastokkabilunar geta verið vanþroski eggjastokka (við frumkomið tíðaleysi) en við síðkomið tíðaleysi geta orsakir eggjastokkabilunar verið sjálfsofnæmi, erfðafræðileg breyting, geislunaráhrif, lyfjaáhrif eða afleiðing skurðaðgerðar.
Tíðni eggjastokkabilunar er 1.9% í almennu þýði (sjálfsprottin og eftir meðferð).
Konur með eggjastokkabilun eru í aukinni hættu á beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdómum, rýrnun á þvag-og kynfærum og því mikilvægt að greina og bjóða hormónameðferð til 51 árs aldurs eða lengur .
Ekki er ráðlagt að nota getnaðarvarnartöflur (með estrogeni) nema þörf sé á getnaðarvörn. Meiri áhætta tengist getnaðarvarnatöflum en hormónameðferð með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma og hormónameðferð hefur einnig betri áhrif á til dæmis beinþéttni.
Mælt er með árlegu eftirliti með mati á meðferð og meginmarkmið er að viðhalda meðferðarheldni. Annars er eftirlit sérsniðið og fer eftir orsök (til dæmis fyrir konur með Turner, legslímhimnuflakk og fleira).