Skemmri skimun
Nokkrir prófhlutar Brigance hafa meiri forspá um vanda en aðrir. Samtala þeirra hluta gefur frekari vísbendingu um vanda. Skemmri skimun samanstendur af þessum atriðum. Viðmiðunarmörk Skemmri skimunar er að finna í töflu 1. Ef samtala barnsins er undir viðmiðunarmörkum Skemmri skimunar þarf að vísa því í frekara mat.
Hafa þarf í huga sálfélagslega áhættuþætti eins og lágt menntunarstig foreldra, foreldra með takmarkaða lesfærni eða tilvik um heimilisofbeldi, þegar mælt er með ítarlegra mati, örvun , íhlutun eða viðeigandi forvörn.
Skemmri skimun metur samskiptafærni barns Í 2½ árs skoðun og skólafærni í 4 ára skoðun.
Tafla 1. Viðmiðunarmörk eftir aldri við Skemmri skimun með Brigance
A: 2½ árs þroskaskimun
Aldur (í árum og mánuðum) |
Möguleg stig |
Vísbending um vanda |
Skor á óvissustigi |
2-6 til 2-8 |
47 |
15 eða minna |
20 eða minna |
2-9 til 2-11 |
47 |
16 eða minna |
21 eða minna |
B: 4 ára þroskaskimun
Aldur (í árum og mánuðum) |
Möguleg stig |
Vísbending um vanda |
Skor á óvissustigi |
4-0 til 4-3 |
45 |
26 eða minna |
30 eða minna |
4-4 til 4-7 |
45 |
28 eða minna |
31 eða minna |
4-8 til 4-11 |
45 |
30 eða minna |
33 eða minna |
Þegar niðurstöður eru túlkaðar þarf að athuga hvort frammistaða barnsins er talin áreiðanleg, þ.e. hvort barn hafi náð að sýna þá færni sem það býr yfir. Atriði sem geta haft áhrif á niðurstöðu prófsins eru m.a. slæm aðstaða til prófunar, ónóg tenging milli barns og prófanda, ónóg sjálfstjórn barns og/eða heilsufarsvandamál. Mælt er með því að fresta þroskamatinu þangað til barnið er orðið frískt ef um veikindi er að ræða.
Til að meta hvort barnið þurfi frekara mat, tilvísun eða hvort allt sé með felldu skal fylgja leiðbeiningum í handbók um túlkun Brigance þroskaskimunar. Ekki skal endurmeta barn í ung- og smábarnavernd þótt skimunin gangi illa.
Mælt er með því að prófandi afli nánari upplýsinga um barnið frá foreldrum, leikskóla eða úr gögnum ung- og smábarnaverndar og noti faglega dómgreind til að meta hvaða ráðstafanir eigi að grípa til. Alltaf skal skoða hvort áhyggjur foreldra komu fram á PEDS og hvort áhyggjur fagaðila hafi vaknað í fyrri skoðunum. Listi yfir áhættuþætti er síðan notaður til að fá yfirsýn yfir mögulega áhættuþætti í umhverfi barns. Ef fjórir eða fleiri áhættuþættir eru til staðar er líklega þörf á nánari skoðun á þeim og viðeigandi íhlutun.
Heildarstigafjöldi getur hæst orðið 100 í Lengri skimun en heildarstigafjöldi er mismunandi eftir aldri í Skemmri skimun. Skoða þarf heildarstig barns og athuga hvort það fellur undir viðmiðunarmörkum Skemmri eða Lengri skimunar. Stór hluti þeirra barna sem skora undir viðmiðunarmörkum eiga við raunverulegan vanda að stríða eins og þroskafrávik eða námsörðugleika. Það skiptir miklu máli að átta sig á því hvar vandi barnsins liggur til að geta vísað því í frekara mat eða komið með ráðleggingar varðandi íhlutun fyrir barnið.
Áhættuþættir
Því fleiri áhættuþættir sem eru til staðar hjá fjölskyldum, því meiri hætta er á seinkun í þroska, hegðunar- eða tilfinningavanda, lægri greind og slakari frammistöðu í skóla. Þegar viðmiðunarskor eru skoðuð verður að hafa í huga að lágt skor gæti hafa stafað af ónógri örvun eða öðrum aðstæðum hjá fjölskyldu en ekki vegna raunverulegs þroskavanda barnsins.
Ef saga eða vísbendingar eru um hamlandi félagslega erfiðleika eða frávik í fjölskyldu skal íhuga hvort vísa þarf foreldrum í ráðgjafaviðtöl, uppeldisnámskeið, aðstoð félagsþjónustu, til barnaverndar eða önnur viðeigandi úrræði.
Ef barn er ekki í leikskóla og vísbendingar um ónóga örvun heima, skal auk viðeigandi fræðslu mæla með leikskóla fyrir barnið.