Ráðleggingar um meðferð algengra sýkinga utan spítala byggjast upphaflega á leiðbeiningum frá Svíþjóð sem eru kenndar við Strama (Strategigruppen för rationell antibiotikaanvändning och minskad antibiotikaresistens) verkefnið þar í landi sem hófst 1995.
Í Stramaverkefninu í Svíþjóð hefur markvisst verið unnið með læknum bæði utan og innan spítala að skynsamlegri ávísun sýklalyfja og er aðferðarfræðin þar fyrirmynd að Strama Ísland – Skynsamleg ávísun sýklalyfja á Íslandi, sem hingað til hefur fyrst og fremst verið unnið að í heilsugæslunni. Umtalsverður munur er á fjölda ávísana á sýklalyf milli þessarra grannþjóða, sérstaklega til barna 0-4 ára og einstaklinga 65 ára og eldri.
Íslensku ráðleggingarnar voru upphaflega unnar árið 2017 með hliðsjón af leiðbeiningum Strama í Svíþjóð með góðfúslegu leyfi þeirra.
Leiðbeiningarnar voru endurskoðaðar í lok árs 2024 m.a. í samvinnu við LSH og til samræmingar við leiðbeiningar þeirra. Ráðleggingar um lyfjaval er í vissum tilvikum frábrugðið milli landanna, fyrst og fremst vegna mismunandi stöðu á sýklalyfjanæmi eins og t.d. næmi penumococca fyrir penicillini.
Ráðleggingarnar eru hugsaðar sem stuðningur við heilbrigðisþjónustuna og hvern þann lækni sem sinnir meðferðinni. En þær koma ekki í staðinn fyrir einstaklingsbundið klínískt mat í hverju tilfelli.
Strama Ísland er samvinnuverkefni ÞÍH, Sóttvarnarlæknis og Sýkla og veirufræðideildar LSH.