Langvinnir verkir

Talið er að fimmti hver fullorðinn einstaklingur búi við langvinnt verkjaástand. Í flestum tilvikum eru verkirnir í stoðkerfi. Langvinnir verkir eru oft hluti af fjölveikindum, hrjá fólk með mörg heilsufarsvandamál, andleg og líkamleg. Viðfangsefnið er oft flókið. Notkun sterkra verkjalyfja hefur aukist hér á landi á undangengnum árum. Ávanahætta og önnur hætta af notkun slíkra lyfja er umtalsverð og árangur af notkun þeirra til lengri tíma ekki þekkt. Fjölþáttanálgun við langvinnum verkjum er líklega besta nálgunin við langvinnu verkjaástandi og ef slíkt úrræði er ekki aðgengilegt er líklegt að önnur úrræði eins og ávísun sterkra verkjalyfja verði meiri en æskilegt er.

Fjölþátta endurhæfing eða meðferð við langvinnum verkjum á Íslandi hefur að miklu leyti verið bundin við stofnanir á borð við Reykjalund og NLFÍ. Umfang viðfangsefnisins er meira en svo að slíkar stofnanir anni eftirspurn eftir endurhæfingu vegna langvinnra verkja.

  • Vorið 2019 gerðu HH og Hæfi endurhæfingarstöð með sér samkomulag um tilraunaverkefni á fimm heilsugæslustöðvum innan HH. Læknar heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu geta vísað sjúklingum með langvinna verki til Hæfis þar sem endurhæfingarlæknir, sjúkraþjálfarar og sálfræðingur koma að mati, meðferð, eftirfylgd, ráðleggingum og tilvísun til baka til heilsugæslulæknis þegar það á við eða er tímabært. Með þessu verkefni er hugmyndin að prófa og þróa heilsugæslutengda  fjölþáttanálgun/ endurhæfingu skjólstæðinga HH með langvinna verki. 
  • Gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið þetta standi í 1-2 áður en hægt verður að meta árangur eða gagnsemi þess.