Nýtt líf án tóbaks

Algengi reykinga hefur farið minnkandi á Íslandi á undanförnum áratugum sennilega fyrst og fremst fyrir tilstuðlan ýmissa lýðheilsuaðgerða. Skipulögð úrræði innan heilsugæslunnar í heild hafa verið minni en efni standa til. 

Talið er  að helmingur reykingamanna látist fyrir aldur fram úr sjúkdómum tengdum reykingum. Tæplega 9% fullorðinna Íslendinga reykja daglega, flestir sennilega vegna fíknar í nikótín. 5% þungaðra kvenna reykja, 50% sjúklinga með langvinna lungnateppu reykja, reykingar eru algengari meðal tekjulægri og þeirra sem hafa styttri menntun. Hugsanlegt er að frekari lýðheilsuaðgerðir geti skilað enn frekari árangri en hlutverk heilbrigðiskerfisins er mikilvægt í að skipuleggja markviss meðferðarúrræði við svo algengum sjúkdómi með svo háa dánartíðni og áhrif á heilsu. 

Sérstaklega er það aðkallandi hjá ófrískum konum og sjúklingum með reykingatengda sjúkdóma s.s. lungna og hjartasjúkdóma. Heilsugæslan ætti að vera þar í lykilhlutverki.

 

Undanfarin misseri hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu í samvinnu við Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Reyksímann með styrk frá Lýðheilsusjóði unnið að verklagi varðandi aðstoð við þungaðar konur sem reykja.

Myndbandið „Nýtt líf án tóbaks“ var afrakstur þessarar samvinnu, sem ljósmæður nýta í mæðraverndinni til að veita upplýsingar og fræðslu um reykingar á meðgöngu. Konum sem reykja er síðan boðin aðstoð og eftirfylgd Reyksímans til viðbótar við þá aðstoð sem þær fá í hinni hefðbundnu mæðravernd.

-Þetta verklag hefur verið kynnt fyrir ljósmæðrum í mæðravernd á höfuðborgarsvæðinu svo og með tölvupósti til ljósmæðra í mæðravernd utan höfuðborgarsvæðisins.

Tóbak og meðganga á heilsuvera.is þar sem myndbandinu er skipt í styttri einingar.