Næringarfræðingur

Mataræði er hornsteinn meðferðar við sykursýki af öllum gerðum. 

Ráðleggingar um mataræði fyrir fólk með sykursýki af tegund 2 eru að miklu leyti þær sömu og fyrir fólk almennt, en þær fela í sér að borða holla og fjölbreytta fæðu i hæfilegum skömmtum. Áherslan er á matvæli sem eru næringarrík frá náttúrunnar hendi, eins og grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ heilkornavörur, baunir, linsur, jurtaolíur, hreinar mjólkurvörur, fisk og kjöt. Vatn er svo ávallt besti valkosturinn til drykkjar. Mismunandi tegundir kolvetna geta haft mismunandi áhrif á blóðsykur, því er ólíkt milli einstaklinga, hve mikið magn kolvetna í fæðu er ráðlagt. Flestum nægir að huga að gæðum þeirra í fæðunni.


 Virðing fyrir aðstæðum og venjum hvers og eins er grundvallarhugsunarháttur þegar kemur að næringarmeðferð. Fyrsta skref er að ávinna sér traust einstaklingsins og fara yfir núverandi matarvenjur, þekkingu, aðstæður og skoðanir einstaklingsins. Í framhaldinu þarf að meta hvort æskilegt sé að gera breytingar á mataræðinu og skoða með einstaklingnum hverju hann er tilbúinn til að breyta. Rannsóknir sýna að mismunandi tegundir mataræðis geta hentað sem næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki og er það einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum best.


 Fagfólk heilsugæslunnar getur leitað til næringarfræðings ÞÍH til að aðstoða skjólstæðinga sem best. Til langs tíma er mikilvægt að tryggja aðkomu næringarfræðinga að teymisvinnu heilbrigðisstarfsmanna sem sinna meðferð við sykursýki.