Sykurfall – Einkenni eru breytileg. Oft er hungurtilfinning, kaldur sviti, skjálfti, fölvi, hraður púls, höfuðverkur, hjartsláttarónot, einbeitingarörðugleikar, dofi í vörum/tungu, talörðugleikar, sjóntruflun, óeðlileg hegðun eða rugl og í versta falli meðvitundarleysi.
Meðferð er að gefa strax hraðvirkt kolvetni (sykur) t.d. nokkra sykurmola, sætindi eða glas af sætum drykk (gos, ávaxtasafi, mjólk, best að gefa með sogröri). Sykurgel í munn, t.d. Hypostop fyrir þá sem verða of slappir til að borða eða drekka. Þegar viðkomandi hefur jafnað sig skal gefa langvirkt kolvetni t.d. brauðsneið eða banana.
Einkenni hverfa yfirleitt á 5 - 15 mínútum en fylgjast þarf með sjúklingi þar til einkenni hverfa alveg og ekki er hætta á nýju sykurfalli.
Stundum þarf sjúklingur aðstoð við ofangreint og aðstandendur ættu að hafa aðgengilegt glúkagon í einnota sprautum til notkunar í neyðartilvikum. Ef hinn sykursjúki missir meðvitund er ráðlegt að hringja í 112 eftir aðstoð og gefa strax glúkagon í vöðva (virkar á 10 – 15 mín). Við langa föstu eða sykurfall tengt áfengisdrykkju virkar glúkagon lítið.
Sykurfall er þó oftast ekki stórvandamál í tegund 2 sykursýki vegna þess að flestir sjúklingar hafa lágt insúlínnæmi og nokkra eigin framleiðslu insúlíns og glúkagons. Þeim mun lengur sem viðkomandi hefur haft SS2 minnkar eigin insúlínframleiðsla og glúkagon losun og þá eykst hættan á sykurfalli.
Áfengi - Minnkar blóðsykurframleiðslu í lifur og eykur þannig hættuna á sykurfalli, jafnvel daginn eftir drykkju. Undir áhrifum áfengis áttar viðkomandi sig einnig síður á einkennum sykurfalls og fólk í umhverfi þess getur mistúlkað einkenni sykurfalls, jafnvel meðvitundarleysi, sem orsakað af drykkju.
MedicAlert – armband eða nisti með upplýsingum um að viðkomandi sé með sykursýki og á insúlíni er mikið öryggisatriði.
Fæst hjá Lions, Sóltúni 20. – sími 561 3122.