Almenn skilgreining á háþrýsting er blóðþrýstingur ≥140/90 mmHg. Mikilvægt er að meðhöndla háþrýsting sem lið í forvörnum fyrir hjarta- og æðasjúkdómum. Árangur meðferðar er vel staðfestur upp í 85 ára aldur. Rannsóknir benda til þess að háþrýstingur sé almennt undirmeðhöndlaður. Fleiri sjúklingar þurfa að ná meðferðarmarkmiðum og það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem eru í hárri áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og meðal þeirra sem þegar hafa fengið heilaáfall, hjartaáfall, hjartabilun, útæðasjúkdóm, sykursýki eða nýrnasjúkdóm.
Rétt er að rifja upp „helmingaregluna“ þ.e.:
- Meðal einstaklinga með of háan blóðþrýsting hefur aðeins helmingur greinst með háþrýsting.
- Meðal þeirra sem greinst hafa með háþrýsting hefur helmingur fengið meðferð.
- Meðal þeirra sem hafa fengið meðferð hefur helmingur náð meðferðarmarkmiðum.
Skilmerki fyrir greiningu og meðferð skv. NICE leiðbeiningum
Stig Háþrýstings | Stofumæling (mmHg) | 24 tíma meðalgildi | Heimamæling meðalgildi |
Stig 1 | ≥140/90 en ≤160/100 | ≥135/85 | ≥135/85 |
Stig 2 | ≥160/100 | ≥150/95 | ≥150/95 |
Lífsstílsmeðferð
Ætti alltaf að vera grundvallarhluti meðferðar. Í sumum tilvikum dugir það eitt og sér.
Þeir þættir sem þar eru mikilvægastir eru:
- Þyngd - forðast yfirþyngd og offitu.
- Salt - draga úr saltneyslu og ætti neysla salts ekki að fara yfir 6-7g daglega.
- Halda skal áfengisneyslu í lágmarki.
- Hreyfing er afar mikilvæg í meðferð háþrýstings.
- Ávextir og grænmeti ættu að vera hluti af daglegri neyslu.
- Gæta skal að því að borða fjölbreytta fæðu, fisk a.m.k. 2-3 í viku.
Sólarhringsblóðþrýstingsmælingar
Mælt er með að nota sólarhringsblóðþrýstingsmælingu til greiningar háþrýstings.
Heimamælingar
Mjög gagnlegar til að fylgjast með árangri meðferðar en ekki eins heppilegt til greiningar.
Meðferðarmarkmið
Almenn markmið að ná blóðþrýsting undir 140/90 mmHg en þau eru mismunandi eftir aldri og hvort um aðra sjúkdóma er að ræða.
Ef mikill munur á stofumælingu og heimamælingu þá styðjast við það síðarnefnda og nota <135/85 sem markmið.
Flestir háþrýstingssjúklingar þurfa a.m.k. tveggja lyfjameðferð jafnvel í upphafi meðferðar.