Þótt framfarir síðustu áratuga hafi fært mannkyni trausta þekkingu og gagnreynd og aðgengileg úrræði til að lækka blóðþrýsing án alvarlegra aukaverkana er háþrýstingur enn gríðarstórt vandamál. Þekking og gagnreynd úrræði eru stórlega vannýtt víðast hvar í heiminum og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er vangreindur og vanmeðhöndlaður háþrýstingur eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Að sama skapi eru bætt greining og öflugri meðferð háþrýstings auk forvarnarstarfs meðal stærstu tækifæra til betri heilbrigðisþjónustu og heilsu. Háþrýstingur er áhættuþáttur hjarta-, nýrna- og heilasjúkdóma osg sýnt hefur verið fram á að lækkun hækkaðs blóðþrýstings hamlar gegn öllum þessum stóru sjúkdómum nútímans, kransæðasjúkdómum, hjartabilun, alvarlegum hjartsláttartruflunum, heilablóðföllum, heilabilun og langvinnri nýrnabilun.
Skilgmerki fyrir greiningu og meðferð
Í leiðbeiningum NICE er sett fram eftirfarandi nánari útfærsla og undirflokkun eftir alvarleika háþrýstings og eftir því hvernig blóðþrýstingurinn er mældur.
Stig Háþrýstings |
Stofumæling (mm/Hg) |
24 tíma meðalgildi |
Heimamæling meðalgildi |
Stig 1 |
≥140/90 en <160/100 |
≥135/85 |
≥135/85 |
Stig 2 |
≥160/100 |
≥150/95 |
≥150/95
|
Rannsóknir og uppvinnsla
Meginmarkmið uppvinnslu eru:
- Að staðfesta að háþrýstingsgreiningin sé rétt.
- Kanna hvort um frumkominn háþrýsting sé að ræða eða hvort undirliggjandi sjúkdómur eigi hlut að máli.
- Kanna aðra áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, meðal annars með því að taka lífsstílssögu.
- Kanna hvort skemmdir í marklíffærum séu til staðar.
Þvagstrimilspróf til greiningar eggjahvítu og/eða blóðs í þvagi.
S-kreatínín og blóðsölt (natríum og kalíum).
Blóðsykur - helst fastandi.
Blóðfitur - að minnsta kosti heildarkólesteról og eðlisþungt fituprótein (HDL) og fastandi þríglýseríðar.
Hjartalínurit.
Mæling á hæð og þyngd.
Spyrja um reykingar og áfengisneyslu.