Strama - Skynsamleg ávísun sýklalyfja

Bæklingur þessi er þýddur úr sænsku og staðfærður með tilliti til næmis baktería og lyfja sem skráð eru hérlendis. Nokkur munur er á næmi baktería á Íslandi og í Svíþjóð. Svo að dæmi sé tekið er þannig minnkað næmi eða ónæmi hjá nálægt 20% af Streptococcus pneumoniae gagnvart pensillíni á Íslandi. Sömuleiðis gagnvart erýtrómýcíni og fleiri sýklalyfjum. Þetta verður til þess að stundum er mælt með breiðvirkari lyfjum á Íslandi en gert er í Svíþjóð.

Í sænsku útgáfunni 3:3 sem gildir frá febrúar 2016 segir:

Þessi bæklingur hefur að geyma samantekt ráðlegginga um meðferð algengra sýkinga utan spítala. Þær eru unnar eru af Smittskyddsinstitutet (Sóttvarnastofnun) og Läkemedelsverket (Lyfjastofnun) 2013. Smittskyddsinstitutet varð hluti af Folkhälsomyndigheten (Lýðheilsuembættinu) í janúar 2014 sem ber ásamt Läkemedelsverket ábyrgð á bæklingnum frá þeim tíma.

Strama-ráðið, ráðgjafi Smittskyddsinstitutet, aðstoðaði við samantektina. Markmiðið er að bæklingurinn komi læknum að gagni við meðferð algengra sýkinga. Í öllum landsþingum (sveitarfélögum) er að finna Stramahópa sem vinna að því að farið sé að ráðleggingum um algengar sýkingar utan spítala. Strama-hóparnir eru hluti af Strama-netinu á öllu landinu sem styður þessar meðferðarráðleggingar.

Samantektin er gerð út frá ítarlegri leiðbeiningum um meðferð á; miðeyrnabólgu, skútabólgu, hálskirtlabólgu, sýkingum í neðri öndunarvegum, þvagfærasýkingum hjá konum, sem og húð- og mjúkvefjasýkingum sem lagðar hafa verið til grundvallar á vinnufundum sérfræðinga. Ráðleggingar þessar snúast fyrst og fremst um sjúklinga utan spítala sem ekki eru með neinn alvarlegan, undirliggjandi sjúkdóm. Ráðleggingarnar eru hugsaðar sem stuðningur við heilbrigðisþjónustuna og hvern þann lækni sem sinnir meðferðinni. En þær koma ekki í staðinn fyrir einstaklingsbundið klínískt mat á sjúklingi.

Aftast í bæklingnum er viðbót með samantekt um merki alvarlegrar sýkingar hjá börnum. Þessi samantekt byggir á niðurstöðum fundar á vegum Smittskyddinstitutet vorið 2012.

Frekari upplýsingar og ítarlegri leiðbeiningar um meðferð er að finna á: www.lakemedelsverket.se eða www.folkhalsomyndigheten.se

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur fengið góðfúslegt leyfi Strama til að þýða þennan bækling og staðfæra.  Eftirtaldir aðilar komu að því verki: 

Elín Arna Ellertsdóttir, Kristján Linnet, Oddur Steinarsson, Jón Steinar Jónsson, Karl G. Kristinsson og Þórólfur Guðnason. 

Að auki komu fram gagnlegar ábendingar frá Michael Clausen og Pétri Heimissyni.

Vakin er athygli á upplýsingum um sýklalyfjanæmi sem er að finna á vef Landspítala (smellt á Næmispróf og sýklalyfjaónæmi).