GULUR SEPTEMBER
Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tekur þátt í undirbúningshópnum.
Boðið verður upp á fræðsluerindi á rafrænu formi í hádeginu alla fimmtudaga á meðan á átakinu stendur í samvinnu við Sálfræðingafélag íslands og fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu.
Sérfræðingar fara yfir bjargráð sem við getum sjálf notað til þess að viðhalda góðri líðan eða ná jafnvægi í líðan. Hægt verður að finna hlekki á fræðsluerindin á vef ÞÍH, á vef sálfræðingafélags íslands og á viðburðum á facebook svæði sálfræðingafélags íslands.
Fræðsluerindin eru öllum aðgengileg á teams. Hlekki er að finna í dagskrá hér fyrir neðan:
Dagskráin:
Hvað get ég gert til að viðhalda góðri líðan?
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-12:30 alla fimmtudaga í Gulum September.
5. september: Almenn geðrækt, hreyfing og næring - upptöku má finna hér.
- Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur, ÞÍH
- Katrín Ýr Friðjónsdóttir, doktorsnemi við HR
12. september: Að takast á við mikla vanlíðan og sjálfsvígshugsanir - upptöku má finna hér.
- Tómas Kristjánsson Phd, sálfræðingur, lektor við HÍ
19. september: Svefnráð fyrir börn og fullorðna
- dr Erla Björnsdóttir, sálfræðingur
26. september: Að styðja við góða líðan hjá börnum
- Theódóra Gunnarsdóttir, sálfræðingur HSN
- Kolbjörg Lilja Benediktsdóttir, sálfræðingur HSA
3.október: Að takast á við áföll
- Inga Guðlaug Helgadóttir, yfirsálfræðingur HSS
2) Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10.október
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-13:00 í samvinnu við VIRK
Almenn bjargráð, streita, kulnun ofl. Nánari dagskrá kemur síðar.
Það er von undirbúningshópsins að Gulur september, auki meðvitund samfélagsins um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna - sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju.
Starfsmenn heilsugæslu eru hvattir til þess að taka þátt í gulum september 2024 en margir tóku þátt í fyrra með því að klæðast gulu og bjóða upp á gular veitingar.
Haustið er valið fyrir átakið vegna þess að Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október. Lögð verður áhersla á slagorðin; „Er allt í gulu?“, ,,Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ og „Er allt í gulu í þínum skóla?“ Í ár verður kynningarefni átaksins einnig þýtt á ensku og pólsku.
Árið 2023 var stigið stórt framfaraskref í sjálfsvígsforvörnum þegar Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna varð til og föstu fjármagni frá heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið til málaflokksins. Lífsbrú - er starfrækt undir merkjum embættis landlæknis en markmið Lífsbrúar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda til að fækka sjálfsvígum.
Vonir standa til að félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki, stór og smá, geti tekið höndum saman, tekið þátt í átakinu á einhvern hátt og dreift boðskapnum.
Hugmyndir að því hvernig hægt er að taka þátt:
- Dreifa veggspjaldi um Gulan september sem víðast.
- Fylgjast með dagskránni sem er í vinnslu og taka þátt.
- Taka þátt í gula deginum 10. september:
- Klæðast gulu, skreyta með gulu eða bjóða upp á gular veitingar.
- Taka myndir af gulri stemmingu. Myndin getur verið sjálfa eða af vinum, fjölskyldu, samstarfsfólki, skreytingum eða gulum hlutum.
- Deila myndum á samfélagsmiðlunum með myllumerkinu #gulurseptember
- Gera gulum vörum hátt undir höfði í verslunum, stilla þeim upp og jafnvel veita afslátt af gulum vörum.
- Prjóna flíkur úr gulu garni.
- Minna á semikommuna (;) sem er kennimerkið fyrir Gulan september en táknið er notað víða um heim til að sýna samstöðu með geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Það vísar til framhalds, seiglu og vonar.
- Lýsa upp byggingar og/eða glugga í gulu.
Að verkefninu standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossi Íslands, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Verkefnið leiðir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjá embætti landlæknis.