GULUR SEPTEMBER
Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tekur þátt í undirbúningshópnum.
Boðið verður upp á fræðsluerindi á rafrænu formi í hádeginu alla fimmtudaga á meðan á átakinu stendur í samvinnu við Sálfræðingafélag íslands og fagfélag sálfræðinga í heilsugæslu.
Sérfræðingar fara yfir bjargráð sem við getum sjálf notað til þess að viðhalda góðri líðan eða ná jafnvægi í líðan. Hægt verður að finna hlekki á fræðsluerindin á vef ÞÍH, á vef sálfræðingafélags íslands og á viðburðum á facebook svæði sálfræðingafélags íslands.
Fræðsluerindin eru öllum aðgengileg á teams. Hlekki er að finna í dagskrá hér fyrir neðan:
Dagskráin:
Hvað get ég gert til að viðhalda góðri líðan?
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-12:30 alla fimmtudaga í Gulum September.
5. september: Almenn geðrækt, hreyfing og næring - upptöku má finna hér.
- Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur, ÞÍH
- Katrín Ýr Friðjónsdóttir, doktorsnemi við HR
12. september: Að takast á við mikla vanlíðan og sjálfsvígshugsanir - upptöku má finna hér.
- Tómas Kristjánsson Phd, sálfræðingur, lektor við HÍ
19. september: Svefnráð fyrir börn og fullorðna - upptöku má finna hér.
- dr Erla Björnsdóttir, sálfræðingur
26. september: Að styðja við góða líðan hjá börnum. Upptöku má finna hér.
- Theódóra Gunnarsdóttir, sálfræðingur HSN
- Kolbjörg Lilja Benediktsdóttir, sálfræðingur HSA
3.október: Að takast á við áföll
- Inga Guðlaug Helgadóttir, yfirsálfræðingur HSS
2) Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10.október
Fræðsluerindi í streymi kl.12:00-13:00 í samvinnu við VIRK
Streita og streituviðbrögð, kulnunareinkenni, bjargráð og mismunagreiningar.
Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sálfræðingar og sérfræðingar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði
Það er von undirbúningshópsins að Gulur september, auki meðvitund samfélagsins um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna - sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju.
Starfsmenn heilsugæslu eru hvattir til þess að taka þátt í gulum september 2024 en margir tóku þátt í fyrra með því að klæðast gulu og bjóða upp á gular veitingar.
Haustið er valið fyrir átakið vegna þess að Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október. Lögð verður áhersla á slagorðin; „Er allt í gulu?“, ,,Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ og „Er allt í gulu í þínum skóla?“ Í ár verður kynningarefni átaksins einnig þýtt á ensku og pólsku.
Árið 2023 var stigið stórt framfaraskref í sjálfsvígsforvörnum þegar Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna varð til og föstu fjármagni frá heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið til málaflokksins. Lífsbrú - er starfrækt undir merkjum embættis landlæknis en markmið Lífsbrúar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda til að fækka sjálfsvígum.
Vonir standa til að félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki, stór og smá, geti tekið höndum saman, tekið þátt í átakinu á einhvern hátt og dreift boðskapnum.
Hugmyndir að því hvernig hægt er að taka þátt:
- Dreifa veggspjaldi um Gulan september sem víðast.
- Fylgjast með dagskránni sem er í vinnslu og taka þátt.
- Taka þátt í gula deginum 10. september:
- Klæðast gulu, skreyta með gulu eða bjóða upp á gular veitingar.
- Taka myndir af gulri stemmingu. Myndin getur verið sjálfa eða af vinum, fjölskyldu, samstarfsfólki, skreytingum eða gulum hlutum.
- Deila myndum á samfélagsmiðlunum með myllumerkinu #gulurseptember
- Gera gulum vörum hátt undir höfði í verslunum, stilla þeim upp og jafnvel veita afslátt af gulum vörum.
- Prjóna flíkur úr gulu garni.
- Minna á semikommuna (;) sem er kennimerkið fyrir Gulan september en táknið er notað víða um heim til að sýna samstöðu með geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Það vísar til framhalds, seiglu og vonar.
- Lýsa upp byggingar og/eða glugga í gulu.
Að verkefninu standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossi Íslands, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Verkefnið leiðir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjá embætti landlæknis.