Strama - Skynsamleg ávísun sýklalyfja

 

Þróun ónæmis fyrir sýklalyfjum er alvarleg hótun við nútíma læknisfræði og heilbrigðisþjónustuna í heild. Lengi hefur verið þekkt samband milli mikillar notkunar á sýklalyfjum og notkunar breiðvirkra sýklalyfja og ónæmisþróunar fyrir lyfjunum. Íslendingar nota mest Norðurlandabúa af sýklalyfjum. Langstærsti hluti sýklalyfjaávísana er frá læknum utan sjúkrahúsa. Stór hluti þessara lyfjaávísana er við sjúkdómum sem hafa góðar horfur, sem jafnvel  hafa mikla tilhneigingu til að lagast án meðferðar og hafa mjög sjaldan alvarlega fylgikvilla. Sennilega er mikilvægasta vopnið í baráttunni við þróun sýklalyfjaónæmis skynsamleg, aðhaldssöm ávísun sýklalyfja, sérstaklega breiðvirkra sýklalyfja utan sjúkrahúsa. Í því skyni að stuðla að skynsamlegri ávísun sýklalyfja var STRAMA verkefninu hleypt af stokkunum árið 2016, fyrst í samvinnu HH, Sóttvarnalæknis og Sýklafræðideildar LSH, með sænska STRAMA verkefnið sem fyrirmynd (strama.se) 

 

  • Þýðing á staðfærsla á bæklingnum: Ráðleggingar um meðferð algengra sýkinga utan spítala í samvinnu við HH, Sóttvarnalækni og Sýklafræðideildar LSH 2016-17
  • Kynning á bæklingnum og verkefninu á öllum heilsugæslustöðvum HH vorið 2017
  • Markmið sett í lok árs 2017 og aftur 2018 í samráði við yfirlækna HH um breytingar á sýklalyfjaávísunum innan HH annars vegar um fækkun ávísana á azitrómýcin og amoksíklav um 10% á ári og fækkun ávísana til barna 0-4 ára um 10%
  • Vöktun á ávísunum á sýklalyf innan HH
  • Kynning á verkefninu fyrir barnalækna árið 2017
  • Ráðgefandi „STRAMA-hópur“ stofnaður í janúar 2019
  • Gagnasýn í Sögu sem gerir hverjum lækni auðvelt að fylgjast með sínum ávísunum á sýklalyf í samanburði við aðra lækna á heilsugæslustöðinni og heilbrigðisstofnuninni varð að veruleika haustið 2019

Frá vorinu 2017 voru haldnir fundir á öllum heilsugæslustöðvum á landinu sem vildu taka þátt (stundum slegið saman stöðvum). Margir þessara funda voru í fjarfundarformi. Fulltrúar ÞÍH kynntu verkefnið og stöðu ávísana á sýklalyf ásamt stöðu og þróun ónæmis. Síðan var staða ávísana á hverri stöð skoðuð og rædd og læknar stöðvarinnar hvattir til að setja sér markmið fyrir hvert ár sem gæti stuðlað að skynsamlegri ávísun sýklalyfja.

Að lokinni þessari funda „hringferð“ um landið er Stramaverkefnið nú komið í fasa 2 sem er hugsaður til næstu fimm ára (2021-2026). Tíu heimilislæknar hafa tekið að sér að vera Stramalæknar, hver í sinni heilbrigðisstofnun. Þar af eru fjórir á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsti fundur Stramalæknanna var í maí 2021 þar sem einnig voru fulltrúar samstarfsaðila Strama, Sóttvarnalæknis og Sýklafræðideildar Landspítala. Í haust munu Stramalæknar funda með heilsugæslustöðvum á sínu svæði, fara yfir stöðu og þróun ávísana og ónæmis og hvetja til markmiðasetningar varðandi ávísanir á sýklalyf á hverri stöð. Næstu fimm árin er ráðgert að halda árlega vorfund Strama og að Stramalæknar fundi árlega með læknum heilsugæslustöðva á sínu svæði.

 

Jón Steinar Jónsson yfirlæknir
Anna Bryndís Blöndal lyfjafræðingur

 

 

Frá því Stramaverkefninu var hleypt af stokkunum vorið 2017 hefur verkefnahópur Strama hjá ÞÍH (áður HH) fundað með læknum allra heilsugæslustöðva landsins.

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á sýklalyfjavali á þessum árum, sérstaklega fækkun sérstaklega fækkun á ávísunum á amoksíklav og azitrómýcin. 

Nú er tímabært að hefja fasa 2 í Strama—Ísland. 

Til liðs við verkefnið hafa komið 10 heimilislæknar, svokallaðir Stramalæknar. Fjórir á höfuðborgarsvæðinu og einn í hverri heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni.

Áfram verður verkefnið unnið í samvinnu við Sóttvarnarlækni og Sýklafræðideild LSH. Þessir aðilar munu funda árlega og leggja drög að áherslum fyrir hinn árlega Stramafund  sem ráðgert er að halda á hverri heilsugæslustöð þar sem Stramalæknir fundar með læknum stöðvarinnar. 

Hann/hún verður með kynningu, Gagnasýnin skoðuð og hugað að markmiðum sem gætu stuðlað að skynsamlegri ávísun sýklalyfja á stöðinni.

 

Stramalæknar heilsugæslunnar eru:

  • Jóhannes Bergsveinsson - HVE
  • Súsanna Björg Ástvaldsdóttir - HVEST
  • Bragi Sigurðsson - HSN
  • Már Egilsson - HSA
  • Kristján Þór Gunnarsson - HSU
  • Kristinn Logi Hallgrímsson - HSS

Fyrir heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu:

  • Jón Steinar Jónsson 
  • Anna Sigurðardóttir
  • Margrét Ólafía Tómasdóttir

2021

Á undanförnum árum hafa orðið umtalsverðar breytingar á sýklalyfjaávísunum í heilsugæslunni og í landinu í heild sérstaklega hvað varðar fækkun á ávísunum á amoksíklav og azitrómýcin. (myndir 1 og 2 úr Lyfjagagnagrunni EL). Jafnframt hefur orðið veruleg fækkun á heildarfjölda ávísana, sérstaklega á árinu 2020, sem markaðist af heimsfaraldi COVID-19. Á árinu 2020 voru sýklalyfjaávísanir til barna næstum helmingi færri en árið 2016.(mynd1) Sá árangur sem hefur náðst á þessu sviði ætti að vera öllum læknum hvatning til að leggja áherslu á skynsamlega ávísun sýklalyfja en einnig hvatning til allra sem málið varðar að stuðla að góðum smitvörnum í leikskólum, skólum og samfélaginu í heild. 

Mynd 1

Mynd 2

 

2022

Á árinu 2022 varð mikil aukning milli ára í ávísunum sýklalyfja til barna 0-4 ára en jafnframt var mikil aukning í fjölda öndunarfæragreininga. Hugsanlega er um áhrif að ræða sem tengjast Covid-19 með einhverjum hætti en fjölgun ávísana ætti að hvetja lækna áfram að huga að skynsamlegri ávísun sýklalyfja. 

Ávísunum í heild fjölgaði nokkuð á milli árana 2020 til 2021 en hefur fækkað talsvert frá 2017

Stramalæknarnir munu funda með heilsugæslustöðvum á sínum svæðum í haust (2022) og fara yfir þróun í sýklalyfjaávísunum og ónæmi og ræða markmið fyrir næsta ár á hverjum stað sem gæti stuðlað að skynsamlegri ávísun sýklalyfja.

 

2024

Í skýrslu Sóttvarnarlæknis sem gefin er út árlega má sjá þróun sýklalyfjaávísana út frá gögnum lyfjagagnagrunns Embættis landlæknis

Á árunum 2016-2019 varð 15% fækkun ávísana á sýklalyf á Íslandi og nálgaðist ávísanafjöldinn 600 ávísanir á hverja 1000 íbúa á ári. Eins og víðast hvar annars staðar fækkaði ávísunum á sýklalyf umtalsvert á árinu 2020 þegar Covid-19 farandur gekk yfir en fjölgaði jafnt og þétt á árunum 2021-2023 þegar fjöldi ávísana var um það bil sá sami og 2019.

Ávísunum til barna 0-4 ára fækkaði hlutfallslega meira árið 2020 en í heildarþýðinu en fjölgaði umtalsvert aftur á árunum 2021-2023 þegar fjöldi ávísana var svipaður og árið 2018.

Eftirtektarverð er sú breyting sem varð á fjölda ávísana á amoxicillin og enzýmblokkara á árunum 2015-2019 (2020 fækkaði ávísunum almennt) en því miður hefur ávísunum í þessum flokki lyfja fjölgað aftur á árunum 2021-2023.

Markmið Strama er áfram að stuðla að skynsamlegri ávísun sýklalyfja, fækka heildarávísunum, sérstaklega til barna 0-4 ára og fækka ávísunum á breiðvirk sýklalyf í heilsugæslunni.