Langvinnur heilsuvandi
Sérstök áhersla er lögð á sykursýki af tegund 2, ofþyngd/offitu, langvinna lugnateppu, hjarta- og æðasjúkdóma og hækkaðan blóðþrýsting.
Stefnt er að því að fólk fái greiningu á heilsuvanda sínum snemma svo það geti notið góðs af viðeigandi meðferð.
Viðmiðunum er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir þverfaglegan hóp heilbrigðisstarfsmanna sem eru að sinna þessum skjólstæðingum út frá Einstaklingsmiðaðri áætlun.
Í greiningarferli og þegar greining liggur fyrir hefur verið tilgereindur "málastjóri" (t.d. hjúkrunarfræðingur) sem er ábyrgur fyrir samhæfingu á Einstaklingsmiðaðri áætlun fyrir skjólstæðinginn.
Fólk fær stuðning við að taka málin í sínar eigin hendur með það að markmiði að draga úr sjúkdómseinkennum og bæta lífsgæði.
Einstaklingsmiðuð áætlun er sett fram í samráði við skjólstæðing.
Rannsóknir og skoðun
Hér eru sett fram viðmið fyrir blóðprufur, mælingar og skoðanir sem miða að því að tryggja að skjólstæðingar, með langvinnan heilsuvanda og eru í þjónustu í heilsugæslu á landsvísu, fái grunnheilbrigðisþjónustu óháð búsetu.
Viðmiðin eru sett fram sem tillögur að fyrirkomulagi fyrir greiningu og eftirliti með skjólstæðingum sem greindir eru með sykursýki tegund 2, ofþyngd/offitu, langvinna lungnateppu, hjarta- og æðasjúkdóma og hækkaðan blóðþrýsting og eru í heilsugæsluþjónustu.
Greining og fyrstu rannsóknir eru á ábyrgð viðkomandi læknis. Farið yfir Einstaklingsmiðaða áætlun með tilliti til meðferðarheldni lyfja, blóðprufugilda og skoðana.
Frekari rannsóknir og meðferð eru á ábyrgð læknis og taka mið af heilbrigðisástandi skjólstæðingsins.
Niðurstöður rannsókna eru endurskoðuð og gerðar viðeigandi breytingar ef þarf. Ef breytingar eru gerðar er skjólstæðingi boðin eftirfylgd; rafrænt, símleiðis eða með viðtali á stöð.