Er allt í gulu hjá þér?

Mynd af frétt Er allt í gulu hjá þér?
21.08.2023

Gulur september verður haldinn í fyrsta skiptið á þessu ári en það er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Verkefnið er á vegum landlæknis en Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tekur þátt ásamt öðrum. 

Gulur september verður haldinn árlega til að vekja athygli á geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum en gulur er litur sjálfsvígsforvarna. 

Vonin er að gulur september festist í sessi um ókomin ár sem og slagorðið „er allt í gulu?“

Í ár er lögð sérstök áhersla á geðrækt á vinnustöðum; með slagorðinu „er allt í gulu á þínum vinnustað?“

Heilbrigðisstofnanir og starfsmenn heilsugæslu eru hvött til að taka þátt í verkefninu og sérstaklega með því að setja í dagskrá að fá starfsmenn til að klæðast einhverju gulu fimmtudaginn 7. september, taka mynd og deila henni sem víðast.