Rivotril 0,5 mg er um þessar mundir ófáanlegt

Mynd af frétt Rivotril 0,5 mg er um þessar mundir ófáanlegt
22.05.2023

Fyrir þá sem eru á Rivotril (clonazepam) í langtímameðferð og eiga á hættu að fara í fráhvarf vegna lyfjaskorts, þarf að vera möguleiki á að skipta yfir í annað benzódíazepín lyf.

Reikna má jafngildisskammta benzódíazepína, en það þarf að gera með varkárni og taka tillit til skammtaráðlegginga með hverju lyfi, helmingunartíma og aldurs fólks.

Rivotril hefur meðallangan helmingunartíma, um 12 klst.

Fyrir einstaklinga yngri en 65 ára er möguleiki  á að skipta Rivotril 0,5 mg yfir í díazepam (Stesolid) 5 mg eða lorazepam 1 mg (Temesta - undanþágulyf) sem hefur styttri helmingunartíma en díazepam, eða um 8 klst.

Fyrir eldra fólk er díazepam ekki góður valkostur þar sem það hefur mun lengri helmingunartíma en önnur benzódíazepínlyf og því hætta á uppsöfnun lyfsins með alvarlegum afleiðingum.

Benzódíazepínlyf geta almennt haft neikvæð áhrif á vitræna getu og auka hættu á byltum og þar með beinbrotum hjá öldruðum. Ef þessi lyf eru á annað borð notuð hjá öldruðum þá hefur verið mælt með lyfjum með styttri helmingunartíma eins og oxazepam og þá í lágum skammti og stuttan tíma, sjá ráðleggingar um lyfjaval á heimasíðu ÞÍH; Lyfjameðferð aldraðra 


Til viðmiðunar má áætla að Rivotil (clonazepam) 0,5 mg jafngildi 15 mg af Sobril (oxazepam), en mælt er með að byrja á sem lægstum skammti, eða um 10 mg.

Ef áhugi er á niðurtröppun á Rivotril er bent gagnleg verkfæri á heimasíðu ÞíH; Ávanabindandi lyf.