Rétt þjónusta: Kvíðaraskanir, áfallastreita og þunglyndi

Mynd af frétt Rétt þjónusta: Kvíðaraskanir, áfallastreita og þunglyndi
07.03.2022

Á vef Þróunarmiðstöðvar er nú aðgengilegt myndband um klínískar leiðbeiningar við kvíða, þunglyndi og áfallastreitu. Þar er sagt frá því hvernig hægt er að nálgast slíkar leiðbeiningar, hvers vegna æskilegt sé að styðjast við slíkar leiðbeiningar í heilbrigðisþjónustu og farið stuttlega yfir leiðbeiningar fyrir hverja geðröskun fyrir sig. 


Að lokum er farið yfir hvernig meðferð við þessum algengasta geðræna vanda birtist í samhengi við heilbrigðisþjónustu á Íslandi byggt á þeim lögum og reglugerðum sem eiga við um hana. 
Í heilbrigðisáætlun til 2030 er lögð áhersla á að notendur þjónustunnar fái rétta þjónustu á réttum stað. Samkvæmt 3.gr. laga um réttindi sjúklinga nr.74/1997 hafa notendur rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á. Klínískar leiðbeiningar segja til um hvaða meðferð er gagnreynd við tilteknum vanda en gagnreynd meðferð er meðferð sem endurtekið hefur sýnt árangur í rannsóknum (Sjá einnig 18.gr. reglugerðar nr. 1111/2020 þar sem kemur fram að heilsugæslur skuli viðhafa gagnreynd vinnubrögð). 


Í 19.gr reglugerðar um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa nr. 1111/2020 kemur fram að á heilsugæslustöð skuli veitt geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og fullorðna sem felur í sér mat á vanda, meðferðaráætlun og sálfræðimeðferð, bæði einstaklings- og hópmeðferðir. Áhersla skal lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur (sjá einnig kafla A.3. í aðgerðaáætlun nr.28/145). Því snýst fræðslan að mestu um klínískar leiðbeiningar vegna vægra til miðlungs einkenna kvíða, þunglyndis og áfallastreitu.