Birting gæðahandbókar sálfræðiþjónustu í 1.línu heilsugæslu

Mynd af frétt Birting gæðahandbókar sálfræðiþjónustu í 1.línu heilsugæslu
21.01.2022

Gæðahandbók fyrir sálfræðiþjónustu fullorðinna í 1.línu heilsugæslu er nú aðgengileg á vef Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

Rannsóknir sýna að 30-40% þeirra sem leita til heilsugæslunnar eiga fyrst og fremst við geðrænan vanda að stríða. Frá 2016 hefur verið lögð áhersla á að efla þjónustu heilsugæslunnar við þau sem glíma við geðrænan vanda með samþykkt Alþingis á stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum 2016-2019. Þá voru sett markmið um að gagnreynd sálfræðimeðferð við vægum til miðlungs alvarlegum einkennum kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskun yrði í boði á að minnsta kosti 90% heilsugæslustöðva fyrir árslok 2019. 

Sálfræðiþjónusta heilsugæslunnar hefur vaxið hratt á síðustu fimm árum. Áhersla hefur verið lögð á að byggja upp faglega og örugga þjónustu sem byggir á gæðavísum, klínískum leiðbeiningum og virku árangursmati. Gæðahandbókin er liður í því að samræma fagleg vinnubrögð sálfræðinga á heilsugæslustofnunum á landsvísu. Hvort sem um er að ræða staðbundna- eða fjarþjónustu. 

Gæðahandbókin er fyrst og fremst skrifuð fyrir sálfræðinga sem sinna greiningu og meðferð við vægum til miðlungs einkennum kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskun í 1.línu þjónustu heilsugæslunnar. Kvíðaraskanir, þunglyndi og áfallastreituröskun eru algengar geðraskanir sem hafa áhrif á lífsgæði og líkamlega heilsu og geta m.a. haft áhrif á getu fólk til þess að sinna starfi/námi og stunda félagslíf. Ómeðhöndlaður eða rangt meðhöndlaður geðrænn vandi er einnig kostnaðarsamur fyrir félags- og heilbrigðiskerfið þar sem einkennin geta haft áhrif á afköst í vinnu, leitt af sér fleiri heilsufarsleg vandamál og haft áhrif á líðan fjölskyldu og vina. Mikilvægt er því að notendur sálfræðiþjónustunnar geti fengið bestu mögulegu meðferð við sínum vanda hverju sinni en í handbókinni koma fram leiðbeiningar um verklag sem byggist á klínískum leiðbeiningum. Hún inniheldur ráðleggingar um þau skref sem sálfræðingar fullorðinna geta fylgt frá því beiðni berst um þjónustuna og þar til skjólstæðingur er útskrifaður. Handbókin getur einnig nýst öðrum sem hafa áhuga á að kynna sér það starf sem fer fram í sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna í heilsugæslu.

Gæðahandbókin er liður í því að tryggja að notendur sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar fái rétta meðferð, á réttum tíma og á réttum stað til þess tryggja árangur til langtíma.