Foreldramiðuð kvíðameðferð - Hjálp fyrir kvíðin börn

Mynd af frétt Foreldramiðuð kvíðameðferð - Hjálp fyrir kvíðin börn
16.11.2021

Rannsóknir gefa til kynna að allt að 30% einstaklinga muni á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni þróa með sér kvíðaröskun sem nær klínískum viðmiðum. Það er að segja, kvíðavandinn verður það mikill að hann hindrar eða skerðir verulega daglegt líf einstaklingsins og kemur í veg fyrir, til dæmis, að hann geti sótt vinnu eða stundað nám. Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur og hátt í 7% barna greinast með kvíðaröskun einhvern tíma. 

Með aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum til fjögurra ára frá árinu 2016 er meðal annars sett fram það markmið að aðgengi á heilsugæslustöðvum að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengum geðrænum vanda, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu verði gott. Heilsugæslustöðvar um allt land hafa því í auknum mæli unnið að því að geta boðið upp á gagnreynda meðferð við þessum algengustu röskunum og hafa sett í forgang sálfræðiþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Það getur skipt sköpum að grípa snemma inn í og veita börnum, sem stríða við kvíða, depurð eða afleiðingar áfalla, stuðning til að draga úr hættu á að vandinn þróist á verri veg. 

Hjá heilsugæslunni um allt land er verið að innleiða gagnreynda foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum sem sálfræðingar og rannsakendur við Háskólann í Oxford og Háskólann í Reading hafa þróað til að bregðast við biðlistum og miklum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Meðferðin gengur út á að kenna foreldrum aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar til að nota í daglegu lífi barnsins og hjálpa því þannig að komast yfir kvíðavandann. Hugmyndin byggist á að foreldrar séu best til þess fallnir að styðja barnið þar sem þeir eru oftast með barninu á erfiðum tímum þegar kvíðin kemur fram. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að meðferðin er hagkvæm og mælist jafn árangursrík og aðrar HAM meðferðir sem krefjast mun lengri meðferðartíma. Meðferðin er nú þegar í boði á mörgum heilsugæslustöðvum á landinu. 

Dr. Brynjar Halldórsson, sálfræðingur á LSH, klínískur dósent við Háskólann í Reykjavík og University of Oxford, hefur undanfarin þrjú ár kynnt meðferðina hér á landi. Brynjar hefur í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu staðið fyrir þjálfun sálfræðinga af öllu landinu í þessari meðferð með það að markmiði að hún verði í boði fyrir foreldra kvíðinna barna á landinu öllu. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu stóð fyrir þýðingu bókarinnar „Hjálp fyrir kvíðin börn – handbók fyrir foreldra“ með styrk frá Lýðheilsusjóði og embætti landlæknis, og nýtist foreldrum með eða án fagaðila.  Meðferðarhandbók sem meðferðaraðilar styðjast við hefur verið þýdd yfir á íslensku með fjárstyrk frá Heilbrigðisráðuneytinu og embætti landlækns og komu margir fagaðilar að þýðingu og yfirlestri. Meðferðarefnið hefur nú verið gert aðgengilegt fyrir sálfræðinga á heilbrigðisstofnunum um allt land. 


„Hjálp fyrir kvíðin börn – handbók fyrir foreldra“ er fáanleg í öllum helstu bókabúðum landsins. Með útgáfu bókar og innleiðingar meðferðar í heilsugæslu eykst aðgengi foreldra og barna að árangursríkri kvíðameðferð.  

 

Myndin hér að ofan er tekin í útgáfuteitinu í haust þegar "Hjálp fyrir kvíðin börn - handbók fyrir foreldra" kom út. Á myndinni eru Agnes Agnarsdóttir, Gyða Haraldsdóttir, Sólrún Ósk Lárusdóttir og Brynjar Halldórsson.