Breytingar á leiðbeiningum um D-vítamínviðbót

Mynd af frétt Breytingar á leiðbeiningum um D-vítamínviðbót
01.06.2021

Breytingar hafa orðið á D-vítamínmagni í ungbarnablöndum og hafa leiðbeiningar um D-vítamínviðbót til foreldra barna sem nærast eingöngu á ungbarnablöndu því verið endurskoðaðar.

Þar sem D-vítamínmagn í ungbarnablöndum er nú meira en áður hefur ráðleggingum til foreldra ungbarna sem nærast eingöngu á ungbarnablöndu verið breytt.

Ef barnið nærist eingöngu á ungbarnablöndu og fær 800 ml á sólarhring eða meira ætti það ekki að fá D-vítamínviðbót, svo sem D-vítamíndropa eða -úða. Fái barnið meira en 800 ml af ungbarnablöndu á sólarhring og 10 µg af D-vítamíni til viðbótar á formi D-vítamíndropa eða úða þá getur magnið farið yfir örugg efri mörk neyslu. Örugg efri mörk neyslu eru 25 µg á dag fyrir börn á aldrinum 0-6 mánaða og 35 µg á dag fyrir börn á aldrinum 6-12 mánaða.

Fyrir börn sem fá minna en 800 ml af ungbarnablöndu á dag eða börn sem eru eingöngu á brjóstamjólk er ráðleggingin óbreytt, það er 10 µg af D-vítamíni á dag með D-vítamíndropum. 

Barn sem nærist eingöngu á ungbarnablöndu getur við fjögurra mánaða aldur fengið að smakka litla skammta af öðrum mat. Magn fastrar fæðu er aukið smám saman í takt við þarfir barnsins og við það minnkar magn ungbarnablöndu sem barnið fær.

Hafi barn verið að drekka meira en 800 ml af ungbarnablöndu, og því ekki verið að fá D vítamínviðbót, er mikilvægt að byrja að gefa D-vítamínviðbót á þegar magn ungbarnablöndu verður minna en 800 ml á sólarhring. Þá er ráðlagt að gefa 10 µg af D-vítamíni á dag eins og kemur fram hér að ofan.

Nánari upplýsingar má finna hjá Leiðbeiningum um ung- og smábarnavernd, á Heilsuveru og heimasíðu Embættis landlæknis.