Blöndun og meðhöndlun bóluefnisins Comirnaty frá Pfizer

Mynd af frétt Blöndun og meðhöndlun bóluefnisins Comirnaty frá Pfizer
05.01.2021

Að gefnu tilefni vill Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins árétta að blöndun og meðhöndlun bóluefnisins Comirnaty frá Pfizer, fór að öllu leyti eftir leiðbeiningum markaðsleyfishafa og fyrirmælum Lyfjastofnunar og Embættis landlæknis.

Til að tryggja stöðugleika bóluefnis og virkni er ekki ráðlagt að safna milli hettuglasa en ef næst heill skammtur úr lyfjaglasinu er notkun leyfð. Þetta er staðfest af Lyfjastofnun, sóttvarnalækni og markaðsleyfishafanum Pfizer.   

Bólusetning Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) við COVID-19 gekk mjög vel. Á tveimur dögum voru yfir 2200 skammtar sem HH fékk til umráða nýttir í forgangshópa skv. reglugerð, fyrst og fremst íbúa hjúkrunarheimila.  

Starfsfólk heilsugæslunnar hefur mikla reynslu af bólusetningum og meðhöndlun bóluefnis. Umræðan á því ekki að snúast um færni, heldur hvort farið er eftir leiðbeiningum. Við viljum þakka öllu okkar starfsfólki, öðrum stofnunum og fyrirtækjum sem komu að þessu ferli fyrir góða samvinnu. 

Undirbúningur er þegar hafinn að næstu skrefum og næstu bólusetningum. Við leggjum allt kapp á að vera tilbúin þegar næstu skammtar af bóluefni koma óháð magni.  

Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins heldur áfram að vinna samkvæmt bestu þekkingu og þeim leiðbeiningum markaðsleyfishafa sem eru í gildi hverju sinni.    

Anna Bryndís Blöndal yfirlyfjafræðingur HH
Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar
Óskar Reykdalsson forstjóri