Rannsókn á skimun fyrir einhverfu í 2½ árs skoðun í ung- og smábarnavernd fór fram á níu heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í mars 2016 til október 2017. Alls tóku 1586 börn þátt í rannsókninni og skimuðust 63 börn jákvæð á fyrsta stigi skimunarinnar með M-CHAT-R/F skimunartækinu og fækkaði þeim niður í 26 börn að loknu öðru stigi skimunarinnar. Af þeim greindust 18 með einhverfu og sex með aðrar taugaþroskaraskanir. Af þessum 18 börnum sem greindust með einhverfu þá höfðu átta börn farið í gegnum 2½ árs skoðun án athugasemda.
Höfundar álykta að það sé auðvelt að skima fyrir einhverfu í ung- og smábarnavernd með því að nota M-CHAT-R/F skimunartækið. Mikilvægt er að finna einhverfu snemma hjá börnum svo þau geti notið snemmtækrar íhlutunar sem getur aukið þroska þeirra og aðlögunarhæfni. Stytta þarf sömuleiðis biðtímann eftir greiningu til þess að eyða óvissu hjá foreldrum og skapa farveg fyrir sérhæfða og markvissa íhlutun.
Meðfylgjandi er hlekkur á grein sem birtist í septemberútgáfu tímaritsins Research in Autism Spectrum Disorders og byggir á samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, Þroska- og hegðunarstöðvar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið hefur gengið undir heitinu: Að bera kennsl á einhverfu snemma (Early detection of autism) og er hluti af doktorsnámi Sigríðar Lóu Jónsdóttur sálfræðings við Háskóla Íslands.
Greinina er að finna hér.