Um samspil líkama og sálar

Mynd af frétt Um samspil líkama og sálar
25.06.2020

Þegar kemur að veikindum, jafnvel langvinnum veikindum, eigum við til að líta á þau á afmarkaðan hátt, sem sértæka bilun sem þarfnast viðgerðar. Vissulega á það stundum við, sérstaklega þegar um bráð veikindi eða slys er að ræða. En oftast eru málin ekki alveg svo einföld. Við sem lífverur erum ekki einföld. 

Heilbrigðisvísindin hafa á undanförnum árum leitt æ betur í ljós hvernig mismunandi kerfi líkamans vinna saman að heildinni. Þannig getur lítil truflun á einu kerfi haft áhrif á virkni annarra kerfa líkamans. Sem dæmi má nefna áhrif andlegs álags á ónæmiskerfið (ástæða þess að við verðum oft veik í kjölfar erfiðs tímabils í vinnu), streita breytir hormónakerfinu og blóðsykrinum, álag á lungu hefur áhrif á almenna bólgumyndun í öðrum líffærakerfum, svo sem hjarta og liðum. Jafnvel einfalt beinbrot getur haft víðtækari áhrif á heilsu en bara gagnvart beininu sem brotnaði.

Um flækjur og fjölveikindi 

Samfara bættum lífslíkum og betri heilbrigðisþjónustu hefur algengi langvinnra sjúkdóma aukist. Með bættri meðferð lifir fólk lengur með sjúkdóma, jafnvel stóran hluta ævinnar. Á sama tíma hafa fjölveikindi aukist, það er fólk með tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma. Í raun er það orðið svo að flestir sem leita til heimilislækna glíma við fjölveikindi.
Helstu undirliggjandi þættir sem auka líkur á fjölveikindum eru hækkandi aldur, erfið félagsleg staða, áföll og langvinn streita. Algengustu sjúkdómar innan fjölveikinda eru svo skiljanlega þeir sömu og eru algengastir í samfélaginu almennt, svo sem stoðkerfissjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar, efnaskiptasjúkdómar og andleg vandamál. 

Þeir sem glíma við fjölveikindi leita meira á öll svið heilbrigðiskerfisins. Þeir fara oftar til heimilislækna sem og annarra sérfræðilækna, leita oftar á bráðamóttökur, eru líklegri til að vera lagðir inn á spítala og til að liggja þar lengur. 

Meðferð við fjölveikindum er töluvert flókin. Þær klínísku leiðbeiningar sem læknar vinna eftir gera sjaldnast ráð fyrir að um marga sjúkdóma sé að ræða hjá sama einstaklingi, vísindin byggja mest á rannsóknum á stökum sjúkdómum og meðferðir með lyfjum gera ekki ráð fyrir að sami einstaklingur taki mörg ólík lyf. Þá aukast mögulegar milliverkanir og aukaverkanir lyfja. Þannig getur meðferð sem samkvæmt vanalegum mælingum ætti að vera betri haft verri afleiðingar fyrir einstakling með fjölveikindi.

Heildræn nálgun heilsugæslunnar 

Þegar um flókin fjölveikindi er að ræða verður nálgun meðferðar gjarnan brotakennd. Heilbrigðiskerfið okkar er byggt upp á þann hátt að sérfræðingar sinna mismunandi afmörkuðum hlutum líkamans án þess alltaf að taka mið af heildarmyndinni. Skjólstæðingar sækja á marga mismunandi staði til að fá þjónustu og erfitt getur reynst að ná utan um meðferð og leiðbeiningar. 

Við meðferð fjölveikinda er hlutverk heimilislækna og heilsugæslunnar mikið. Hlutverk heilsugæslunnar er ekki bara að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu heldur einmitt að þekkja skjólstæðinginn og ná utan um heildarmynd vandamálanna. Hugmyndafræði heimilislækninga byggir á meðferð frá vöggu til grafar, hún byggir á heildrænni nálgun þar sem tekið er mið af öllum áhrifaþáttum heilsu, bæði í innra og ytra umhverfi. Í þeim flókna heimi sem við lifum í verður hlutverk heimilislækna og heilsugæslunnar sífellt mikilvægara. 

Höfundur er Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir Heilsugæslunni Efstaleiti og lektor við læknadeild HÍ. 
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.