Í tengslum við árlega tannverndarviku sem bar upp á 4.-8. febrúar í ár voru landsmenn hvattir til að huga vel að tannheilsunni. Sérstök áhersla var lögð á skaðleg áhrif sykurlausra orkudrykkja á tennur en unglingar virðast í auknu mæli velja þessa drykki í þeirri trú að þeir séu „hollara“ val þar sem þeir innihalda ekki sykur. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tók þátt í þessari vinnu m.a. með því að senda fræðsluefni og veggspjöld til allra skólahjúkrunarfræðinga á landinu með hvatningu um að vekja athygli skólabarna og foreldra þeirra á skaðsemi orkudrykkja á tennur.
Innihalda örvandi efni
Lítið er um samræmdar reglur í Evrópu um innihaldsefni og magn þeirra í orkudrykkjum. Allir orkudrykkir innihalda koffín auk annarra örvandi efna og allir eru þeir „súrir“ sem þýðir lágt sýrustig (pH< 5,5) og hafa því glerungseyðandi áhrif á tennur. Orkudrykkir flokkast sem almenn matvæli hérlendis og engar sérstakar reglur eru í matvælalögum sem takmarka auglýsingar eða sölu á drykkjarvörum sem innihalda minna en 320 mg/l af koffíni. Framleiðendum ber þó skylda til að merkja umbúðir og vara börn, barnshafandi konur og konur með börn á brjósti við neyslu orkudrykkja ef koffínmagnið í drykknum er 150 mg/l eða meira.
Markaðssetning orkudrykkja í verslunum er mismunandi en víða eru þeir á áberandi stöðum auk þess sem hvatt er til neyslu þeirra með afsláttarkjörum sem auðveldar aðgengi barna og unglinga að þeim og hvetur til kaupa á orkudrykkjum. Auglýsingar, aðgengi og sala orkudrykkja virðist óhindruð og án eftirlits.
Neyslan eykst með hærri aldri
Dagleg neysla ungmenna á orkudrykkjum eykst með hækkandi aldri hjá bæði stelpum og strákum. Árið 2018 sögðust einn af hverjum fimm í 8. bekk, einn af hverjum þremur í 9. og 10. bekk og rúmlega helmingur framhaldsskólanema drekka orkudrykki daglega eða oftar.
Orkudrykkir eru oft markaðssettir sem hollir drykkir sem stuðli að hreysti. Staðreyndin er hins vegar sú að neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu getur valdið hjartsláttartruflunum og aukið vökvatap líkamans þegar þeirra er neytt í kjölfar íþróttaæfinga eða meðan á þeim stendur. Fæstir sem drekka orkudrykki hugleiða skaðleg áhrif þeirra á tannheilsu en mikil og tíð neysla sykurlausra orkudrykkja leysir upp ysta lag glerungsins sem þynnist og eyðist og myndast ekki aftur. Tennurnar verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum.
Herða viðmið og auka eftirlit
Hér á landi stendur ekki til að takmarka sölu á orkudrykkjum að öðru leyti en því að óheimilt er að selja orkudrykki með miklu magni af koffíni eða koffíninnihaldi meira en 320 mg/l börnum yngri en 18 ára. Að mati landlæknis er full þörf á að endurskoða umrætt viðmið.
Með það að markmiði að vernda heilsu og tannheilsu íslenskra barna og ungmenna er skorað á stjórnvöld að herða viðmið og auka eftirlit með auglýsingum, aðgengi og sölu orkudrykkja með meira en 150mg/l af koffíni. Jafnframt eru foreldrar og forráðamenn barna hvattir til að fylgjast með því að þau séu ekki að drekka orkudrykki, þar sem slíkir drykkir geta bæði verið skaðlegir vegna koffínmagns auk þess sem þeir skaða tennur.
Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir - Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Ása Sjöfn Lórensdóttir, fagstjóri heilsuverndar skólabarna - Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.