Ung- og smábarnavernd og COVID-19

Mynd af frétt Ung- og smábarnavernd og COVID-19
18.03.2020

Landlæknir hefur ítrekað að sinna þurfi almennri og mikilvægri heilbrigðisþjónustu eins og kostur er þrátt fyrir yfirstandandi faraldur. Það er mikilvægt að viðhalda ung- og smábarnavernd, sér í lagi þeim skoðunum þar sem verið er að bólusetja börnin. 

Hér eru tillögur að verklagi sem eiga við ef ástandið á heilsugæslustöðvum gefur ástæðu til. Þessar tillögur hafa verið bornar undir sóttvarnalækni. 

  • Einungis eitt foreldri mæti með barnið í skoðanir í ung- og smábarnavernd.
  • Hjúkrunarfræðingar fari í heimavitjanir miðað við þarfir fjölskyldunnar. Ef hægt er þá er farið í a.m.k. eina heimavitjun og hjúkrunarfræðingur er síðan í reglulegu sambandi við foreldra í gegnum síma. 
  • Barn komi í 6 vikna skoðun á heilsugæslustöð.
  • Barn fái allar bólusetningar skv. tilmælum sóttvarnalæknis. Ekki fresta þeim skoðunum ef mögulegt er.
  • Símaviðtal hjúkrunarfræðings við 9 vikna aldur, 10 mánaða aldur, 2½ árs aldur, ef þarf sökum álags á stöðvunum. Barnið komi þó í skoðun á stöð ef talin er þörf á því eftir símtal. 
    • 9 vikna skoðun: Hjúkrunarfræðingur leggur EPDS/GAD-7 fyrir móður í gegnum síma, fær upplýsingar um brjóstagjöf, vöxt & þroska og veitir ráðgjöf í síma. Eftirfylgd við einkenni þunglyndis og kvíða hjá móður samkvæmt leiðbeiningum.
    • 10 mánaða skoðun: Hjúkrunarfræðingur gerir þroskamat í gegnum síma. Hægt að skrá í Sögu að upplýsingar séu fengnar hjá foreldrum.
    • 2 ½ árs skoðun: Hjúkrunarfræðingur leggur PEDS fyrir í gegnum síma, fær upplýsingar um hvernig gengur og veitir ráðgjöf. Æskilegt er þó að bjóða þessa skoðun síðar ef hægt er. 
  • Fresta má 4 ára skoðun eitthvað, en hafa í huga að í þessari skoðun er bæði bólusetning og sjónpróf og því mikilvægt að hún falli ekki niður.