Útivist og hollusta um verslunarmannahelgi

Mynd af frétt Útivist og hollusta um verslunarmannahelgi
01.08.2019

Fram undan er mikil ferðahelgi. Íslendingar eru duglegir að nýta sér verslunarmannahelgina til að ferðast um landið, njóta útiveru og samvista við ættingja og vini. Gott helgarfrí er kjörið tækifæri til að bæta heilsuna, bæði andlega og líkamlega, þegar hlé gefst á daglegu amstri. 

Óteljandi möguleikar til heilsubótar

Á ferð okkar um landið eru óteljandi möguleikar til heilsubótar. Göngur eru góð hreyfing sem ekki á að vanmeta.Hver og einn velur sér hve langt er gengið og hve hratt. Nóg er af gönguleiðum um landið allt hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, merktir göngustígar eða troðningar. Ekki þarf glæsta búninga og aðgangskort til að ganga úti. Góðir skór og skjólgóð yfirhöfn dugar vel, svo er bara að halda af stað.

Fjallgöngur eru skemmtilegar fyrir þá sem vilja frekari áskoranir en einnig góð samvera fyrir fjölskyldur eða hópa. Skynsamlegt að fara hægt af stað og bæta tindum í safnið ekki þarf að byrja á hæstu tindum, það vantar ekki fjöllin á Íslandi.

Vandamál leyst í sundlaugum

Sundlaugar um allt land eru ómetanlegar heilsulindir fyrir okkur Íslendinga. Hitinn í laugunum hefur góð áhrif, við finnum minna fyrir stirðleika og verkjum, það er léttara að hreyfa sig í vatni. Um allt land eru frábæra sundlaugar með heitum pottum og jafnvel köldum. Margir nota köldu pottana eftir áreynslu til að slá á stirðleika og eymsli, köldum pottum fjölgar hratt í laugum landsins og eru vinsælir.

Ekki má gleyma hinu félagslega hlutverki sundlauga, málin rædd og hin flóknu vandamál lífsins jafnvel leyst í heita pottinum auk þess sem vöðvaverkir og stirðleiki hverfa.

Meðferð gengur betur með hreyfingu

Lífstílssjúkdóma nútímans þekkjum við vel, offitu, streitu, hækkaðan blóðþrýsting og blóðfitur, oft þarf að meðhöndla þessa sjúkdóma með lyfjum. Með reglubundinni hreyfingu og skynsömu mataræði er hægt að lækka blóðþrýsting og blóðfitur, jafnvel þannig að lyfja er ekki þörf. Hvort sem þarf lyf eða ekki við þessum kvillum og öðrum gengur meðferð alltaf mun betur hjá þeim sem hreyfa sig reglulega, það þekkja læknar vel.

Hvað þarf þá að hreyfa sig mikið til að gagn sé af? Við sjáum jákvæð áhrif af eingöngu 20 – 30 mínútna hreyfingu á dag 3–4 daga vikunnar. Æskilegt er að hreyfa sig alla daga vikunnar í að minnsta kosti 30 mínútur, gjarnan fjölbreytt hreyfing en munum að allt er betra en ekkert.

Úrræði við kulnun, kvíða og svefnleysi

Margvíslegar hindranir eru hjá fólki að komast af stað í hreyfingu. Verkir og stirðleiki, þrekleysi, þunglyndi og kvíði. Á öllum heilsugæslustöðvum eru starfandi hreyfistjórar, sjúkraþjálfarar sem hjálpa fólki að bæta líðan með hreyfingu, finna leiðir og úrræði, styðja við og hvetja. Allir geta fengið hreyfiseðil á sinni heilsugæslustöð. Hreyfing og útivist er í dag fyrsta og oft mikilvægasta úrræðið við streitu, kulnun, kvíða og svefnleysi. Allt eru þetta streitusjúkdómar nútímans, óvinnufærni og vanlíðan vegna þessara sjúkdóma eykst hratt, við verðum að nota öll úrræði til að fyrirbyggja streitu, þar er reglubundin hreyfing mikilvæg.

Ofdrykkja gleður engan

Gætum hófs í áfengisdrykkju, að skála af góðu tilefni í góðum félagsskap er annað en ofdrykkja, sem engan gleður en hefur margvíslegar slæmar afleiðingar. Ekki má gleyma hve drykkja hefur slæm áhrif á aksturshæfni þessa miklu ferðahelgi. Athygli og viðbragðsflýtir skerðist strax við minnstu neyslu áfengis. Höfum í huga að eftir einn ei aki neinn. Notum frídagana til að byggja okkur upp fyrir haustið með hreyfingu, útivist og samveru.

 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir
Framkvæmdastjóri lækninga 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. ágúst 2019