Þann 9. maí fékk Embætti landlæknis í heimsókn hollenskan heimilislækni sem kynnti vinnu sem hafist hefur í Hollandi. Þetta er það sem kallað hefur verið jákvæð heilsa eða ný skilgreining á heilsu. Kynningin var haldin í húsnæði Þróunarmiðstöðvarinnar í Álfabakka 16 og var vel mætt.
Þessi nýja skilgreining á heilsu á uppruna í Hollandi hjá heimilislækninum Machteld Huber sem hefur helgað sig rannsóknum á nálgun á heilsu. Hún telur mikilvægt að fólk með langvinna sjúkdóma sjái hlutina í samhengi, sé við stjórnina en fari ekki í fórnarlambshlutverkið. Nálgunin snýst því um þrautseigju, að takast á við veikindi, vera sjálfur við stjórnvölinn, reyna að aðlagast nýjum veruleika eins og kostur er og halda heilsu með því að finna út hvaða aðrir þættir skipta einnig máli í lífinu til að halda heilsu þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm.
Nálgunin er byggð á kenningum um „Salutogenesis“ og „Sense of coherence“ sem eru byggðar á rannsóknum um hvaða bjargráð virka best til að halda góðri heilsu þrátt fyrir áföll. Einnig er byggt á rannsóknum á þeim samfélögum þar sem fólk lifir lengst og það án sjúkdóma „Blue Zones“ með tilliti til lifnaðarhátta.
Mikið af þessu er auðvitað vel þekkt í heilsugæslunni en það er óneitanlega spennandi að heyra hvernig Hollendingar eru að innleiða jákvæða heilsu skipulega í starf sitt, ekki bara á heilsugæslunni heldur innan alls samfélagsins.