Rafrettur – Bragð hættulegt börnum

Mynd af frétt Rafrettur – Bragð hættulegt börnum
09.05.2019

Reykingar hjá börnum og unglingum hafa á undanförnum áratugum minnkað stöðugt og heyrir til undantekninga að börn í grunnskóla noti reyktóbak. Árið 1997 reykti fimmta hvert barn í 10. bekk grunnskóla en einungis 1,7% árið 2018 . Þessa þróun má líklega þakka mjög markvissu tóbaksvarnastarfi hérlendis undanfarna áratugi.

Notkun íslenskra barna og unglinga á rafrettum

Notkun rafrettna hefur hins vegar aukist verulega hjá börnum og unglingum á Íslandi síðastliðin ár. Samkvæmt skýrslu Rannsókna og greiningar frá árinu 2015 höfðu rúmlega 17 prósent 10. bekkinga notað rafrettur en árið 2018 var hlutfallið orðið rúmlega 40 prósent. Þá notaði tíundi hver 10. bekkingur rafrettur daglega. Tæplega fjórðungur framhaldsskólanema notar rafrettur daglega samkvæmt sömu rannsókn en tíundi hver gerði það árið 2016.

Nikótín, virka efnið í rafrettum er mjög ávanabindandi. Það er talið álíka ávanabindandi og heróín. Því er umtalsverð hætta fyrir þann sem verður háður nikótíni að verða notandi þess í einhverju formi til langs tíma.

Þróun rafrettunotkunar barna og unglinga er mikið áhyggjuefni og ef hún heldur áfram munu myndast hópar barna og unglinga sem verða háðir nikótíni til langs tíma og notendur þess í einhverju formi, reyktóbaks, munn- eða nef- tóbaks, og/eða rafrettna.

Hættulegt bragð

Framleiðendur rafrettna hafa glætt vöruna bragðefnum sem geta höfðað til notenda ekki síst ungra notenda, barna og unglinga og hafa sölumenn bragðgóðra rafrettna náð miklum árangri í markaðssetningu vörunnar til barna og unglinga á undanförnum árum.

Samkvæmt tóbakskönnun Gallup 2018 sögðust 18 prósent í aldurshópnum 10-24 ára hafa notað rafrettur. Samkvæmt könnuninni nota langflestir rafrettunotendur bragðbættan vökva í tækin, eða 91 af hundraði og í aldurshópnum 18-24 ára, nánast allir eða 98 af hundraði. Langflestir sem nota rafrettur nota vökva með nikótíni eða 89 af hundraði.

Áðurnefnd könnun sýnir að 71 prósent þeirra, sem hafa notað rafrettur, byrjaði að reykja og fjórðungur byrjaði að nota tóbak í vör eftir að hafa hætt rafrettunotkun.

Nýlega voru birtar áhugaverðar niðurstöður rannsóknar um rafrettur í hinu virta tímariti The New England Journal of Medicine (NEJM). En í leiðara blaðsins sem bar yfirskriftina: The Dangerous Flavors of E-Cigarettes, hvöttu höfundar bandarísku matvæla- og lyfjastofnunina (Food and Drug Administration) til að banna sölu á bragðbættum rafrettum.

Krókur á móti bragði

Sala rafrettna og notkun þeirra er lögleg á Íslandi frá og með 1. mars síðastliðnum. Skiptar skoðanir eru um hvort rafrettur séu virk meðferð við reykingum og ekki er tekin afstaða til þess hér, en hins vegar er mikilvægt að horfast í augu við að markaðssetning rafrettna gagnvart börnum er hættulegt bragð.

Það blasir því við öllum sem vilja standa vörð um heilsu og velferð barna og unglinga að tilkoma rafrettna á markaðinn á Íslandi kallar á markviss viðbrögð margra aðila þar á meðal löggjafans og ráðuneyta heilbrigðismála og barnamála. Reynsla okkar Íslendinga af markvissu tóbaksvarnastarfi áratugum saman ætti að vera leiðarljós í þeim viðbrögðum. Þar þarf m.a. að koma til fræðsla til barna, unglinga og foreldra þeirra ásamt breytingum á hinni nýju löggjöf um rafrettur þannig að hún verndi börn og unglinga t.d. með banni á vörutegundum sem höfða til barna, þar með bragðbættum rafrettum. Einnig þarf að tryggja að eftirlit með sölu rafrettna sé öflugt og tryggi – eins og hægt er – að börn geti ekki keypt slíkar vörur og að viðurlög við brotum á þeim lögum séu ekki léttvæg.

Við tökum því undir með leiðarahöfundum NEJM og hvetjum stjórnvöld til að horfast strax í augu við viðfangsefnið, skipuleggja og hrinda í framkvæmd viðeigandi aðgerðum. Það þarf krók á móti bragði.

Ása Sjöfn Lórensdóttir fagstjóri heilsuverndar skólabarna á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Jón Steinar Jónsson yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu