Sérnámslæknar í heimilislækningum stunda sérnám víða um land og árlega hittast þeir allir saman eina helgi á landsbyggðinni.
Að þessu sinni var haldið á Austurland og Fanney Vigfúsdóttir sérnámslæknir á Egilsstöðum stóð fyrir skemmtilegri dagskrá.
Heilsugæslan á Egilsstöðum var skoðuð og farið var í gegnum verkefni heilsugæslu á landsbyggðinni, m.a. móttöku bruna, sjúkraflutninga, meðferð á heilaáfalli og fleira.
Einnig var farið í heimsókn á umdæmissjúkrahúsið á Norðfirði þar sem Björn Magnússon lyflæknir tók á móti hópnum og fræddi um súrefnismeðferð og sýndi stofnunina.
Næst var haldið á Reyðarfjörð og Eskifjörð og Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga á HSA talaði um salutogenesis eða heilsu. Már Egilsson yfirlæknir í Fjarðabyggð sýndi fjarfundabúnaðinn Agnesi og rætt var um kosti og galla fjarlækninga.
Lokst var farið á Fáskrúðsfjörð þar sem hópurinn var leiddur um gamla læknishúsið og franska spítalann sem hafa verið endurbyggð í samvinnu við Minjavernd á sérlega skemmtilega hátt. Spítalinn er núna hótel og veitingastaður. Sýning um sögu veiða fransmanna, áhrif á austurland og samskipti Frakklands og Íslands er á fyrstu hæð læknishússins og í kjallaranum er skemmtileg uppsetning á seglskútu, eða s.k. gólettu.
Yfirlæknir franska spítalans um áratuga skeið var Georg Georgsson skurðlæknir, sem var einnig franskur konsúll og fulltrúi Franska spítalafélagsins. Á efri myndinni má sjá hópinn fyrir framan gamla læknabústaðinn með mynd af Georg. Á neðri myndinni má sjá hópinn í blíðviðrinu við Heilsugæsluna á Egilsstöðum.