Skólahjúkrunarfræðingar á fræðslufundi

Mynd af frétt Skólahjúkrunarfræðingar á fræðslufundi
12.04.2019

Hjúkrunarfræðingar sem starfa við heilsuvernd skólabarna hittust nýverið á fræðslufundi í Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH).
 
Slíkir fundir eru haldnir einu sinni í mánuði og er tilgangur þeirra að fræða skólahjúkrunarfræðinga um fagleg málefni sem tengjast heilsu og heilsueflingu skólabarna. 

Venjulega hafa þessir fundir verið í sal Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH). En með tilkomu fundaraðstöðunnar á Loftinu hjá Þróunarmiðstöðinni er hægt að hafa slíka fundi þar og bjóða landsbyggðinni að vera með í gegnum fjarfundabúnað.  

Að þessu sinni fengu hjúkrunarfræðingarnir kynningu á möguleikum Heilsuveru. Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kynnti vefinn og fjallaði um hvernig hægt væri að nýta sér hann í starfsemi heilsuverndar skólabarna.

Tækifærið var einnig notað til að þakka fráfarandi sviðsstjóra heilsuverndar skólabarna, Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, fyrir frábært starf í þágu heilsuverndar skólabarna síðastliðin 15 ár. Ragnheiður tók fyrir skömmu við stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Henni var í þakklætisskyni færður forláta gönguskíðabakpoki að gjöf frá skólahjúkrunarfræðingunum. Bergljót Þorsteinsdóttir Heilsugæslunni Grafarvogi afhenti gjöfina.

Í stað Ragnheiðar Óskar á ÞÍH kom Ása Sjöfn Lórensdóttir.