Nýir starfsmenn á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Mynd af frétt Nýir starfsmenn á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
05.03.2019

Nú eru komnar til starfa á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) þær Ása Sjöfn Lórensdóttir sem tók við sem fagstjóri heilsuverndar skólabarna 1. febrúar og  Anna Bryndís Blöndal lyfjafræðingur sem hóf störf 1. mars.

Ása er hjúkrunarfræðingur frá HÍ og með meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá HÍ. 

Hún var frá 1998  til 2018 hjá Heilsugæslunni Garðabæ þar sem hún sinnti aðallega skólaheilsugæslu í grunnskólum í Garðabæ. Undanfarin ár hefur hún verið verkefnastjóri skólaheilsugæslu í Garðabæ og setið í meðferðarteymi barna á Heilsugæslunni í Garðabæ síðastliðið ár. Auk þess hefur hún sinnt ungbarnavernd og þroskamati barna svo og störfum á hjúkrunarmóttöku og ráðgjöf fyrir einstaklinga með sykursýki. Hún tekur við af Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur sem er nú framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH.

Anna Bryndís er doktor í lyfjafræði og fjallaði doktorsritgerðin um innleiðingu lyfjafræðilegrar umsjár í heilsugæslu á Íslandi.

Hún lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2006 og diplómanámi í kennslufræðum frá Háskólanum í Reykjavík fimm árum síðar. Eftir útskrift árið 2006 hóf hún störf á Landspítalanum og starfaði þar fram að doktorsnáminu sem hófst við Lyfjafræðideild árið 2012. 

Anna Bryndís er í 30% starfi á ÞÍH og 30%  starfi á Skrifstofu framkvæmdastjóra lækninga HH ásamt því að starfa sem lektor í HÍ.

Anna Bryndís kemur til með að taka við hlutverki Kristjáns Linnet hjá HH og mun m.a. halda utan um  neyðarlyfin og  pantanir. Hlutverk hennar innan ÞÍH verður að auka lyfjafræðiþjónustu á heilsugæslunni á landsvísu með allskonar verkefnum.

Ása Sjöfn og Anna Bryndís eru frábær viðbót við góðan hóp og við bjóðum þær velkomnar til starfa hjá HH.