Ályktun frá Fagráði ÞÍH

Mynd af frétt Ályktun frá Fagráði ÞÍH
04.02.2019

Fagráð Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun.

Fagráð Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) fagnar þeim áfanga sem náðst hefur með því að ÞÍH hafi tekið til starfa. ÞÍH mun gegna lykilhlutverki í eflingu heilsugæslu og annarar nærþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Fyrirsjáanlegt er að íslenskt samfélag fylgi sömu breytingum og heilbrigðiskerfi nágrannalandanna eru að ganga í gegnum. Með auknu hlutfalli aldraðra og lífsstílssjúkdóma, er heilsugæsla, heimahjúkrun og önnur nærþjónusta það sem þörf er að leggja hvað mesta áherslu á. 

Hlutlaus miðstöð, eins og ÞÍH á að vera, sem styður við kennslu, gæðamál, skipulag, er stór áfangi til að byggja upp og hlúa að heilsugæsluþjónustu á landsvísu. Það er alveg ljóst, miðað við þau fjölmörgu verkefni sem blasa við, að þörf er á að styrkja þessa starfsemi ÞÍH enn frekar á næstu misserum og er það okkar von að miðstöðin verði styrkt verulega sem fyrst. Slík nýting fjármuna í heilbrigðisþjónustu til framtíðar er brýn einmitt nú í ljósi þess að heilsugæslan í landinu er víða veikburða og hún væri líka í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og OECD.

Nánari upplýsingar um fagráðið