Forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu

Mynd af frétt Forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu
29.08.2018

Emil Lárus Sigurðsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu og hefur störf 1. September.
 
Nýstofnsett Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar leiðir faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu. Þróunarmiðstöð  vinnur að samræmingu verklags og samhæfingar milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar.

Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar starfar innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er staðsett í Álfabakka 16 í Mjódd.
 
Emil er sérfræðingur í heimilislækningum og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Gautaborg árið 1996.
 
Hann hefur starfað við Heilsugæsluna Sólvangi frá árinu 1994, þar af sem yfirlæknir 1998-2015. Frá árinu 2015 hefur hann einnig verið yfirlæknir á Þróunarstofu.
 
Emil er prófessor í heimilislækningum við Háskóla Íslands. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í félagsstörfum á sviði heimilislækninga hérlendis, á Norðurlöndum og í Evrópu.
 
Við bjóðum Emil velkominn til áframhaldandi starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.