Sérnám í heimilislækningum aldrei fjölmennara

Mynd af frétt Sérnám í heimilislækningum aldrei fjölmennara
09.08.2018

Það er greinilega áhugi á heimilislækningum meðal ungra lækna og í sérnámshópinn bætast núna tólf nýir læknar.  Samtals eru því 47 læknar í sérnámi í heimilislækningum, sem hefur aldrei verið fjölmennara.  Flestir sérnámslækna munu starfa á höfuðborgarsvæðinu eða 31 en mesta fjölgunin, hlutfallslega, er á Norðurlandi en þar verður núna níu manna sérnámshópur, sem er mjög ánægjuleg þróun.

Sérnám í heimilislækningum á Íslandi er elst sérnáma hérlendis. Fyrstu nemarnir byrjuðu árið 1995 og nokkrum árum síðar kom kennslustjóri til starfa við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og var það upphafið að því skipulagi sem námið er byggt á í dag.

Marklýsing Félags íslenskra heimilislækna er grunnur sérnámsins. Þar kveður á um inntöku, innihald, fyrirkomulag, lengd náms og einstaka námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.  Marklýsingin segir til um kröfur sem gerðar eru, en um leið er gert ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi með stuðningi, leiðbeiningu og eftirliti, þannig að sérnámslæknir nái að tileinka sér þá þekkingu, færni, viðhorf og skilning sem marklýsingin kveður á um.

Sérnámið er fjöregg heimilislækninga á Íslandi og við bjóðum nýja sérnámslækna velkomna og vonum að þeim farnist sem allra best í námi og starfi. 

Nánari upplýsingar um Sérnám í heimilislækningum er að finna hér á vefnum.