Nýtt verklag við Rhesus varnir á Íslandi

Mynd af frétt Nýtt verklag við Rhesus varnir á Íslandi
06.02.2018

Algengasta og alvarlegasta tegund blóðflokkamisræmis móður og barns getur komið fram þegar móðir er Rhesus D neikvæð og fóstrið er Rhesus D jákvætt. Um 15% barnshafandi kvenna eru Rhesus D neikvæðar þ.e. þær eru ekki með Rhesus D mótefnavaka á yfirborði rauðu blóðkornanna.  Um 60% Rhesus D neikvæðra barnshafandi kvenna ganga með Rhesus D jákvætt fóstur. Þær geta myndað rauðkornamótefni  (Rhesus næming) sem geta haft afleiðingar á næstu meðgöngu sé það fóstur einnig Rhesus jákvætt. Mótefnin fara yfir fylgju, bindast rauðkornum fóstursins og valda niðurbroti á þeim. Afleiðingarnar geta verið alvarlegt blóðleysi hjá fóstrinu og alvarleg gula  hjá nýburanum. 

Rhesusvarnir hófust hérlendis fyrir um hálfri öld. Þær hafa falist í reglubundinni  mótefnaleit hjá barnshafandi konum og gjöf anti D immunoglobulins eftir fæðingu hjá Rhesus D neikvæðum konum sem fæða Rhesus D jákvæð börn. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir mynda um ¬2% Rhesus neikvæðra kvenna mótefni á meðgöngu eða um 5 konur á ári skv. nýlegri íslenskri rannsókn. 

Í fjölmörgum löndum hefur öllum Rhesus D neikvæðum konum verið gefið immunoglobulin við 28 vikna meðgöngu um árabil. Með þessu hefur náðst að fækka Rhesus næmingu um 80%. Þetta verklag er í klínískum leiðbeiningum um meðgönguvernd í Englandi, Danmörku. Svíþjóð og Noregi en ekki hérlendis. 

Nú verður tekin upp stýrð gjöf anti D immunoglobulins við 28 vikna meðgöngu hérlendis. Blóðbankinn hefur sett upp aðferð til að greina blóðflokk fósturs með blóðsýni frá móður. Með því að finna hvaða Rhesus D neikvæðar konur ganga með Rhesus D jákvætt fóstur má stýra mótefnagjöfinni. Gert er ráð fyrir að um 8-9% allra barnshafandi kvenna hérlendis þurfi anti D immunoglobulin á meðgöngunni. Rh D neikvæðar konur sem ganga með Rh D neikvætt fóstur þurfa það ekki.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag skimunar og mótefnagjafar er að finna í Fróðleiksmolanum: Rhesus varnir – breytt verklag sem er hér á vefnum ásamt fjölmörgum öðrum Fróðleiksmolum um mæðravernd sem ÞÍH gefur út.