Endurskoðaður bæklingur um Næringu ungbarna

Mynd af frétt Endurskoðaður bæklingur um Næringu ungbarna
09.05.2017

Embætti landlæknis og Þróunarsvið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa gefið út endurskoðaða útgáfu af bæklingnum Næring ungbarna.

Í bæklingnum eru ráðleggingar ætlaðar foreldrum barna á fyrsta aldursári.

Við endurskoðunina var stuðst við nýútgefnar ráðleggingar um næringu ungbarna fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem faghópur á vegum Þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis stóð að.

Í bæklingnum er lýst æskilegu fæði barnsins fyrsta árið, allt frá brjóstagjöf þar til það fer að fá fleiri fæðutegundir en eingöngu mjólk og fer svo að borða með fjölskyldunni.

Ráðleggingarnar í hnotskurn:

  • Ráðlagt er að barnið nærist eingöngu á móðurmjólk fyrstu sex mánuðina. Þó er ráðlagt að gefa D-vítamín frá 1–2 tveggja vikna aldri.
  • Ef móðurmjólkin ein nægir ekki fyrstu fjóra mánuðina er mælt með að gefa eingöngu ungbarnablöndu sem viðbót við brjóstamjólk. Ef barn yngra en fjögurra mánaða er ekki á brjósti er mælt með að næra það eingöngu á ungbarnablöndu.
  • Ef móðurmjólkin ein nægir ekki barni á aldrinum fjögurra til sex mánaða getur það fengið að smakka litla skammta af öðrum mat, jafnvel frekar en að byrja að gefa því ungbarnablöndu. Ef barn nærist eingöngu á ungbarnablöndu við fjögurra mánaða aldur getur það fengið að smakka litla skammta af öðrum mat með.
  • Ef börn þurfa mjólk til viðbótar við móðurmjólkina eða í staðinn fyrir hana eftir 6 mánaða aldur er mælt með stoðblöndu, t.d. íslenskri Stoðmjólk.
  • Æskilegt er að auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulega hratt eftir 6 mánaða aldur. Þá byrjar barnið að borða annan mat en móðurmjólk og fær litla skammta af mörgum fæðutegundum sem eru stækkaðir smám saman. Ekki er talin ástæða til þess að börn í áhættuhópum fyrir ofnæmi fresti neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda.

Hér er hægt að skoða bæklinginn og ráðleggingarnar. 

Umsjónarmenn endurskoðunarinnar voru Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir, verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlækni og Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnasviðs, Þróunarsviði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.