Kvíðanámskeið fyrir skólahjúkrunarfræðinga

Mynd af frétt Kvíðanámskeið fyrir skólahjúkrunarfræðinga
01.09.2016

Þann 31. ágúst byrjuðu 20 skólahjúkrunarfræðingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á námskeiði og hóphandleiðslu um kvíða hjá skólabörnum. Leiðsögn og handleiðsla er í höndum Bettýar Ragnarsdóttur og Þórunnar Ævarsdóttur, sálfræðinga á Þroska og hegðunarstöð. Fyrirhugað er að halda slík námskeið fyrir alla skólahjúkrunarfræðinga núna í vetur og fékk verkefnið styrk bæði frá Velferðarráðuneytinu og Lýðheilsusjóði. 

Hvert námskeið samanstendur af: 

  • Grunnnámskeiði í notkun kvíðagreiningarviðtals (ADIS; Anxiety Disorders Interview Schedule for DSM-IV) samtals 10 tímar. ADIS viðtalið er hálf-staðlað fyrir börn frá 7-17 ára og skiptist í foreldraviðtal og viðtal við barnið sjálft. Farið er ítarlega í allar kvíðaraskanir í viðtalinu, en einnig lyndisraskanir, kjörþögli og áfallastreitu. Að auki eru skimunarspurningar fyrir vímuefnavanda, átraskanir, geðrofseinkenni og þroskafrávik. 
  • Hóphandleiðslu, innlögn og þjálfun í kjölfar grunnnámskeiðs í x3 skipti, þrjár klst í hvert skipti, samtals 9 tímar. Milli hóphandleiðslutíma framkvæma skólahjúkrunarfræðingar verkefni í skólunum, s.s. taka kvíðagreiningarviðtöl og beita úrræðum sem þeir síðan ígrunda og ræða með handleiðara og hópmeðlimum. Tilgangurinn með þessum verklega þætti er að efla færni skólahjúkrunarfræðinga og innleiða markvisst verklag í geðheilbrigðisþjónustu við nemendur. Hvert námskeið nær yfir tveggja mánaða tímabil.

Á myndinni hér til hliðar eru Bettý og Þórunn.