Þverfagleg rannsókn um heilsu og líðan ungmenna

Mynd af frétt Þverfagleg rannsókn um heilsu og líðan ungmenna
04.03.2015

Nýlega hlaut Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Columbia háskólann í New York, 300 miljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að sinna þverfaglegum rannsóknum á áhrifum streitu á líf ungmenna. 

Rannsóknin er einstök í heiminum og þykir framsækin þar sem um viðamikla þverfaglega langtímarannsókn er að ræða. Í rannsókninni eru samþætt lífvísindi, sálfræði og félagsfræði. Skoðað er hvernig umhverfið hefur áhrif á andlega líðan, heilsu og hegðun. Vonir eru bundnar við að rannsóknin muni gefa heildstæðari mynd af heilsu og líðan ungmenna en áður en hefur verið dregin upp. 

Aðalefniviður rannsóknarinnar eru gögn frá heilsugæslunni, s.s. úr mæðravernd, ung- og smábarnavernd og heilsuvernd skólabarna og þau gögn skoðuð í tengslum við gögn frá félagsþjónustunni, Hagstofunni og Námsmatsstofnun.  

Hópur íslenskra, breskra og bandarískra vísindamanna tekur þátt í rannsókninni. Þar á meðal eru starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor í heimilislækningum, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir sviðsstjóri heilsuverndar skólabarna á Þróunarsviði og Ragnheiður I. Bjarnadóttir yfirlæknir mæðraverndar á Þróunarsvið. Þóra Steingrímsdóttir prófessor fyrrverandi starfsmaður HH er einnig í hópnum.