Málstofa um skimunartækin PEDS/Brigance Screens

Mynd af frétt Málstofa um skimunartækin PEDS/Brigance Screens
13.08.2014

Fimmtudaginn 4. september nk. kl. 13:00–16:30 verður málstofa á Grand Hóteli í Reykjavík um notkun skimunartækjanna PEDS og Brigance Screens í ung- og smábarnavernd hér á landi. 

Málstofan er á vegum Embættis landlæknis, þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Námsmatsstofnunar. Markmið hennar er að skoða reynslu af notkun þessara vinnutækja til að meta almennan þroska barna í ung- og smábarnavernd í 18 mánaða skoðun og í skoðunum barna 2½ og 4 ára.
 
PEDS (Parents' Evaluation of Developmental Status) er spurningalisti með 10 spurningum sem foreldrar svara um þroska og hegðun barns síns. 

Brigance Screens skimunartækið nær til margra þroskaþátta, þar með talið fín- og grófhreyfinga, almennrar þekkingar, máls, skólafærni og beitingar skriffæris og er það lagt fyrir barnið af hjúkrunarfræðingi. Þau viðmið sem hafa verið notuð hingað til eru byggð á rannsóknum á bandarískum börnum en nú vinnur Námsmatsstofnun að staðfærslu þeirra fyrir íslenskar aðstæður. Verða niðurstöður þeirrar vinnu kynntar á málstofunni.
 
Sérstakur gestur málstofunnar er dr. Frances Page Glascoe, prófessor við Vanderbilt háskólann í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Hún er höfundur PEDS og forsvarsmaður fyrir notkun Brigance Screens. Kemur hún hingað til lands til að aðstoða þá sem standa að málstofunni við staðfærslu þeirra hér á landi. Mun hún halda erindi um notkun þessara skimunartækja og mikilvægi þeirra í daglegu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
 
Málstofan er opin öllu áhugafólki um góða heilsugæslu og ung- og smábarnavernd hér á landi. Þátttaka er ókeypis.